Bandaríkjaforseti segir vitnisburð og sönnunargögn sem sýnd voru við yfirheyrslur rannsóknarnefndar Bandaríkjaþings í gær vera sláandi. Þetta hafi verið villimannsleg árás gegn lýðræðinu og á löggæslumönnum sem sumir hafi fallið í árásinni.

Rannsóknarnefndin segir Donald Trump fyrrverandi forseta bera ábyrgð á árásinni sem hafi verið skipulögð tilraun hans til valdaráns. Nefndin boðar að frekari sönnunargögn gegn Trump verði opinberuð eftir helgi.

"Það er mikilvægt að bandaríska þjóðin skilji hvað gerðist í raun og veru og að hún skilji að sömu öfl sem voru að verki hinn 6. janúar eru enn virk. Þetta snýst um sjálft lýðræðið. Við verðum að verja lýðræðið," sagði Joe Biden í dag.