Körfubolti

Steph Curry allt í öllu er Stríðsmennirnir jöfnuðu metin

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Stephen Curry var sjóðandi heitur í nótt.
Stephen Curry var sjóðandi heitur í nótt. Elsa/Getty Images

Stephen Curry átti sannkallaðan stórleik fyrir Golden State Warriors er liðið vann tíu stiga sigur gegn Boston Celtics í úrslitum NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt, 107-97. Curry skoraði 43 stig fyrir Stríðsmennina og staðan í einvíginu er nú 2-2.

Leikur næturinnar var jafn og spennandi frá upphafi til enda, enda ekki við öðru að búast þegar komið er í fjórða leik úrslitaeinvígisins. Liðin skiptust á forystunni ellefu sinnum og tíu sinnum var jafnt í leiknum.

Heimamenn frá Boston byrjuðu betur og náðu sjö stiga forskoti í upphafi leiks, en leiddu aðeins með einu stigi að loknum fyrsta leikhluta.

Áfram ríkti jafnræði með liðunum í öðrum leikhluta, en heimamenn virtust þó hálfu skrefi á undan og leiddu með fimm stigum þegar hálfleiksflautið gall, staðan 54-49, Boston Celtics í vil.

Ef einhverjir vonuðust eftir því að Boston-liðið myndi hefja síðari hálfleikinn á því að setja niður nokkur auðveld stig og byggja upp örugga forystu þá slökktu gestirnir ansi fljótt í þeim vonum.

Stríðsmennirnir settu niður fyrstu fimm stig hálfleiksins á fyrstu 40 sekúndunum og jöfnuðu leikinn. Sama jafnræði og í fyrri hálfleik ríkti með liðunum og munurinn í þriðja leikhluta varð aldrei meiri en sex stig. Þegar þriðja leikhluta lauk og komið var að lokaleikhlutanum var munurinn eitt stig, staðan 79-78, Golden State í vil.

Boston-liðið náði fjögurra stiga forskoti í stöðunni 94-90 þegar rétt rúma fimm mínútur voru til leiksloka. Þá tóku gestirnir við sér og skoruðu tíu stig í röð. Stríðsmennirnir leiddu því með sex stigum þegar rúmlega ein og hálf mínúta var eftir á klukkunni.

Það forskot létu þeir aldrei af hendi og unnu að lokum tíu stiga sigur, 107-97. Staðan í einvíginu er því orðin jöfn á ný, 2-2, en vinna þarf fjóra leiki til að tryggja sér NBA-titilinn.

Stephen Curry var sem áður segir allt í öllu í liði Golden State. Hann skoraði 43 stig, tók tíu fráköst og gaf auk þess fjórar stoðsendingar. Þá átti Andrew Wiggins einnig góðan dag í liði Golden State, en hann skoraði 17 stig og tók 16 fráköst.

Í liði Boston Celtics var Jayson Tatum atkvæðamestur með 23 stig, tólf fráköst og sex stoðsendingar. Næstur kom Jaylen Brown með 21 stig.

Fimmti leikur liðanna fer fram á aðfaranótt þriðjudags og verður hann sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2. Upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 00:30 eftir miðnætti, en flautað verður til leiks um hálftíma síðar.

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×