Innlent

Kál­bögglar frá 1944 sendir til greiningar hjá rann­­sóknar­­stofu

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Benedikt Benediktsson er framleiðslustjóri SS. Hann segir að um einangrað tilfelli sé að ræða en fréttastofu hefur borist ábendingar um fleiri tilfelli matareitrunar.
Benedikt Benediktsson er framleiðslustjóri SS. Hann segir að um einangrað tilfelli sé að ræða en fréttastofu hefur borist ábendingar um fleiri tilfelli matareitrunar. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Framleiðslustjóri Sláturfélags Suðurlands segir tilfelli matareitrunar Guðjóns Friðrikssonar einangrað en fyrirtækið hefur sent vöru úr viðkomandi framleiðslulotu til greiningar á rannsóknarstofu. Fréttastofu hefur þó borist ábendingar um fleiri tilfelli matareitrunar vegna kálböggla 1944.

Benedikt Benediktsson segir SS ekki hafa fengið neinar fleiri tilkynningar um matareitrun vegna þessa.

„Þetta er bara mjög sjaldgæft. Vinnulagið okkar er að tilkynna svona matareitrun til heilbrigðiseftirlitsins. Við náðum sömu lotu úr sömu búð þannig við gátum sett þessa lotu á rannsóknarstofu. Við erum búin að smakka þetta sjálf og allt er eðlilegt þannig þetta er bara einangrað tilvik.“

Fleiri tilvik

Fréttastofu hefur borist tilkynningar um fleiri tilvik vegna kálbögglanna. Einn þeirra er ekki hrifinn af meintum framleiðsluaðferðum SS og segir afganga setta í hakkavél til að búa til kjötbollurnar.

Benedikt þvertekur þó fyrir það og segir kjötbollurnar ekki vera afganga heldur kjötfars.

„Þetta eru bara kjötbollur, kartöflur, gulrætur og smjör og pakkað í bakka. Við framleiðum mörg þúsund svona bakka á viku og eitt svona tilvik er komið fram núna en ekki fleiri.“ sagði Guðmundur í samtali við fréttastofu.

SS sendi jafnframt frá sér yfirlýsingu þar sem segir að viðbrögð við öllum ábendingum sé alltaf vísað til viðkomandi heilbrigðiseftirlits. Brugðist hafi verið við málinu á viðeigandi hátt og í svona tilfellum hafi fyrirtækið alltaf samband við viðkomandi sem búið sé að gera í þessu tilfelli.

„Við reglubundið eftirlit með framleiðslunni hefur ekkert komið í ljós sem skýrir frávik í viðkomandi framleiðslulotu,“ segir að lokum í yfirlýsingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×