Innlent

Fjöldi brottfara í maí aldrei verið meiri

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Mikil aukning hefur orðið í umferð um Keflavíkurflugvöll frá því að takmörkunum vegna veiru var aflétt
Mikil aukning hefur orðið í umferð um Keflavíkurflugvöll frá því að takmörkunum vegna veiru var aflétt Vísir/Vilhelm

Brottfarir Íslendinga í maí voru um 65 þúsund talsins og hafa ekki mælst svo margar í maí síðan mælingar hófust. Þetta kemur fram í talningu Ferðamálastofu. Þá voru brottfarir erlendra farþega frá landinu um 112 þúsund talsins sem er fimmti fjölmennasti maímánuður frá því að mælingar hófust.

Frá áramótum hafa brottfarir Íslendinga mælst um 200 þúsund talsins eða um og yfir 80 prósent af því sem þær mældust á sama tímabili árin 2018 og 2019. Enn er þó nokkuð langt í land að ná þeim fjölda brottfara erlendra farþega sem var fyrir kórónaveirufaraldurinn en þær voru 793 þúsund á tímabilinu janúar til maí árið 2018 eða um 334 þúsund fleiri en í ár.

Brottfarir erlendra farþega í maí voru um 68 prósent af því sem þær voru árið 2018 þegar mest var og um 89 prósent af því sem þær voru í maímánuði 2019.

Bandaríkjamenn fjölmennastir

Flestar brottfarir erlendra ferðamanna í maí voru tilkomnar vegna Bandaríkjamanna, um 26 þúsund talsins eða 23 prósent af heild. Bandaríkjamenn hafa verið fjölmennasta þjóðernið um árabil en á eftir þeim koma Bretar sem voru um 9500 talsins eða 8,5 prósent af brottförum erlendra ferðamanna. Á eftir þessum þjóðum koma Þjóðverjar, Hollendingar, Frakkar, Pólverjar og Danir með um fimm til sjö prósent af heildarfjölda brottfara.

Hér má nálgast tölur Ferðamálastofu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×