Þorkell Ágústsson, rannsóknarstjóri flugsviðs hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa, segir í samtali við Morgunblaðið að bráðabirgðaniðurstöður séu væntanlegar fljótlega og jafnvel í þessum mánuði.
Fjórir fórust í slysinu en talið er að vélin hafi snertilent á ísilögðu vatninu og ísinn brotnað undan henni.
Í framhaldinu hófust einar umfangsmestu björgunaraðgerðir síðari ára og komu um þúsund manns að þeim með einum eða öðrum hætti.
Lík mannanna náðust á land nokkrum dögum eftir slysið en vélinni var síðan náð af botni vatnsins í apríl síðastliðnum.