Bjarni Guðmundsson, sem hefur starfað sem tryggingastærðfræðingur í meira en 30 ár, segir að hvorki sé þörf á né lagastoð fyrir því að mismuna sjóðfélögum hvað varðar áunnin réttindi með þessum hætti. Hann hefur skorað á fjármála- og efnahagsráðuneytið að synja lífeyrissjóðum staðfestingu á „fordæmalausum“ umreikningi lífeyrisréttinda sem „brýtur gróflega á eignarrétti yngri sjóðfélaga.“
Að tillögu Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga gaf fjármálaráðuneytið út og staðfesti nýjar líftöflur í lok árs 2021 en þær byggja á spá um auknar lífslíkur í framtíðinni. Fram að því höfðu skuldbindingar lífeyrissjóðanna verið reiknaðar út frá lífslíkum sem byggðu á reynslu fortíðar en ekki spá til framtíðar.
Innleiðing nýrra líftaflna hækkaði mat skuldbindinga lífeyrissjóða – þeir þurfa að greiða mánaðarlegan lífeyri í lengri tíma en reiknað var með – og voru viðbrögð nokkurra sjóða, þar á meðal Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LIVE) og Gildis lífeyrissjóðs, að lækka réttindaöflun til framtíðar og auk þess að lækka áunnin réttindi sjóðfélaga mismikið eftir aldurshópum
Samhliða því voru áunnin réttindi sjóðfélaga aukin þvert yfir línuna en í ljósi áðurnefndrar lækkunar var niðurstaðan sú að aukningin var minnst hjá yngstu árgöngunum en mest hjá þeim eldri. Þannig hækkuðu áunnin réttindi sextugra lífeyrisþega hjá LIVE um rúm 15 prósent en réttindi tvítugra sjóðfélaga um 6,7 prósent. Álíka mismun má sjá hjá Gildi.
Hvers vegna var áunnum réttindum breytt með þessum hætti? Í greinargerðum sem voru lagðar fyrir ársfundi LIVE og Gildis kom fram að yngri kynslóðum hefði verið gefin fyrirheit um of há vænt mánaðarleg lífeyrisréttindi á kostnað eldri kynslóða. Þar af leiðandi þyrfti að jafna áunnin réttindi.
Sjóðirnir hafa burði til að standa við loforðin
Þær breytingar sem gerðar höfðu verið á áunnum réttindum sjóðfélaga fram til loka árs 2021 voru allar á þann veg að réttindi voru ýmist hækkuð eða lækkuð hlutfallslega og jafnt yfir alla hópa.
„Sjóðfélagar hafa því haft lögmætar væntingar um að sá háttur verði hafður á breytingum lífeyrisréttinda, enda kemur hvergi fram í samþykktum að eitt lífeyrisloforð sé öðrum fremra. Aldrei hefur verið gripið til þess ráðs að skerða áunninn rétt sjóðfélaga misjafnlega,“ segir Bjarni.
Þegar sjóðfélagi hefur greitt iðgjald öðlast hann réttindi sem tryggð eru með öllum eignum sjóðsins, til jafns við réttindi annarra sjóðfélaga
Skerðingarnar eru að því leyti fordæmalausar og ekki nóg með það heldur er engin ástæða til að lækka réttindi neins sjóðsfélaga, hvorki hjá LIVE né Gildi, að sögn Bjarna. Þrátt fyrir innleiðingu á nýjum reiknireglum eru skuldbindingar sjóðanna enn þá töluvert lægri en eignir.
„Sjóðirnir eru aflögufærir og geta staðið við þessi loforð. Það er ljóst að innborguð iðgjöld sjóðfélaga hafa á síðustu árum ávaxtast langt umfram þær forsendur sem notaðar eru við gerð réttindataflna. Því er vandséð að réttlætanlegt sé, til dæmis gagnvart ungum sjóðfélögum, að halda því fram að sjóðirnir séu þess ekki megnugir að standa við þau fyrirheit sem þeir hafa gefið,“ segir Bjarni.
En málið snýst í grunninn um jafnræði sjóðfélaga, lög og eignarrétt. Hann segir óumdeilt að lífeyrisréttindi falli undir eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og engin heimild til að mismuna ólíkum hópum sjóðfélaga finnist í samþykktum sjóðanna eða lögum.
„Þvert á móti er stjórn og stjórnendum lífeyrissjóða óheimilt samkvæmt lögum að gera ráðstafanir sem eru bersýnilega til þess fallnar að afla ákveðnum sjóðfélögum, fyrirtækjum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna umfram aðra. Þegar sjóðfélagi hefur greitt iðgjald öðlast hann réttindi sem tryggð eru með öllum eignum sjóðsins, til jafns við réttindi annarra sjóðfélaga. Þau verða ekki skert eftir geðþóttaákvörðun,“ segir hann.
Tilfærslan hjá LIVE líklega yfir 20 milljörðum
Ef breytingarnar hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna eru teknar fyrir voru réttindi lífeyrisþega og sjóðfélaga sem eru 65 ára og eldri voru aukin um 7 prósent að sögn Bjarna en aftur á móti var réttur yngstu sjóðfélaga skertur um 2 prósent.
Hann bendir á að 3,5 prósenta aukning réttinda hjá öllum sjóðfélögum hefði skilað lífeyrissjóðnum sömu tryggingafræðilegu stöðu. Þannig fengu lífeyrisþegar 3,5 prósentum aukningu á réttindum sínum umfram það sem efni stóðu til og á kostnað yngri sjóðfélaga.
Hugsanavillan sem aðferð sjóðanna byggist á er að setja reiknilíkan í stað þess raunveruleika, sem líkaninu var í upphafi ætlað að meta.
Skuldbindingar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna vegna lífeyrisþega nema um 480 milljörðum króna. Bjarna reiknast því til að flutningur verðmæta frá yngri sjóðfélögum til lífeyrisþega nemi að minnsta kosti 17 milljörðum króna og sé áreiðanlega yfir 20 milljörðum króna ef allt er talið.
Og þá eru áhrifin á yngri sjóðfélaga í fleiri lífeyrissjóðum eins og Gildi, sem er þriðji stærsti lífeyrissjóður landsins, ótalin. Ákveði fleiri sjóðir að fara sömu leið getur tilfærslan hlaupið á tugum milljarða króna.
„Það er óhugsandi að flutningur eignarréttinda sem er af slíkri stærðargráðu muni ná fram að ganga án þess að verða vísað til dómstóla,“ segir Bjarni.
Ráðuneytið hefur áður synjað svipuðum breytingum
Finna má fordæmi fyrir því að fjármálaráðuneytið hafni sambærilegum breytingum. Bjarni bendir á að á aðalfundi Lífeyrissjóðs verkfræðinga hefði verið samþykkt breyting þess efnis að verja tryggingafé sem sjóðurinn fékk til sérstakrar aukningar á réttindum sjóðfélaga sem áttu aðild að sjóðnum þegar tryggingaratburðurinn varð árið 2009. Fjármálaeftirlitið veitti neikvæða umsögn um breytinguna og ráðuneytið hafnaði henni.
Í bréfi frá ráðuneytinu til lífeyrissjóðsins var lögð áhersla á að samtrygging fæli í sér að áhætta dreifðist með jöfnum hætti meðal sjóðfélaga sem eiga réttindi á þeim tíma þegar breyta þarf réttindaávinnslu, óháð aðstæðum. Eignir sjóða, skrifaði ráðuneytið, væru ekki deildaskiptar, hvorki eftir tímabili né sjóðfélögum.
„Hugsanavillan sem aðferð sjóðanna byggist á er að setja reiknilíkan í stað þess raunveruleika, sem líkaninu var í upphafi ætlað að meta. Þeir gera ekki greinarmun á stjórnarskrárvörðum réttindum og niðurstöðu reiknilíkans,“ segir Bjarni.