Körfubolti

Af liðum í úrslitakeppninni væri LeBron mest til í að spila með Golden State

Atli Arason skrifar
LeBron James í leik með Los Angeles Lakers.
LeBron James í leik með Los Angeles Lakers. EPA-EFE/ETIENNE LAURENT

LeBron James, leikmaður LA Lakers, hefur aftur kveikt í þeirri vangaveltu að hann og Stephen Curry gætu spilað í sama liði einn daginn.

James verður í nýjasta þætti af The Shop sem mun birtast næsta föstudag. Stikla fyrir þáttinn kom út í gær en þar er James spurður að því hvaða liði í úrslitakeppninni hann væri mest til í að spila með. James svaraði að Golden State væri það lið og um leið lýsti hann yfir aðdáun sinni á Draymond Green.

Golden State Warriors og Boston Celtics leika til úrslita um NBA titilinn þetta árið og þriðji leikur liðanna hefst núna klukkan 00:55. Það liggur ekki fyrir hvenær þessi þáttur af The Shop var tekinn upp og þá hvort það hefðu verið fleiri lið í boði sem svarmöguleikar fyrir James. Það er auðvitað víðþekkt að Lakers og Celtics eru erkifjendur til margra ára en þetta eru tvö sigursælustu liðin í NBA, bæði með 17 titla. James hefði því ekki geta nefnt Celtics án þess að allt færi á hliðina í Los Angeles.

LeBron James hefur fyrr á þessu ári, í sömu þáttum, lýst yfir aðdáun sinni á Stephen Curry. James sagði þá að Curry væri sá leikmaður í deildinni í dag sem hann væri mest til í að spila með.

„Ég elska allt við þennan gaur, hann er banvænn. Maður þarf að vera alveg í andlitinu á honum um leið og hann mætir á völlinn. Eiginlega bara um leið og hann labbar út úr bílnum fyrir utan leikvöllin þá þarf maður að dekka hann,“ sagði LeBron James um Stephen Curry.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×