Innlent

Bjór seldur á knatt­spyrnu­leik á Laugar­dals­velli í fyrsta sinn í sögunni í kvöld

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Vallargestir hafa lengi kallað eftir bjórsölu að sögn markaðsstjóra KSÍ.
Vallargestir hafa lengi kallað eftir bjórsölu að sögn markaðsstjóra KSÍ. vísir/vilhelm

Bjór verður í fyrsta sinn í sögunni seldur á knattspyrnuleik á Laugardalsvelli í kvöld þegar Ísland mætir Albaníu. Markaðsstjóri KSÍ býst við mikilli stemningu í stúkunni og vonast til að sólin og bjórsalan verði til þess að fólk mæti fyrr í laugardalinn.

Það þekkist víða hérlendis og erlendis að vallargestir skáli í bjór á knattspyrnuleikjum. Það hefur þó ekki verið hægt á Laugardalsvelli hingað til en í dag verður breyting á því bjór verður í fyrsta sinn í sögunni seldur á knattspyrnuleik á Laugardalsvelli þegar Ísland tekur á móti Albaníu á heimavelli í þjóðadeildinni.

„Þetta er bara eitthvað sem stór hópur okkar vallargesta hefur verið að kalla eftir. Við sjáum þetta í leikjum í bestu deildinni, maður fer í leikhús, úti um allt og það er hægt að fá sér bjór ef maður vill og við sáum enga ástæðu til þess að bjóða ekki upp á þetta hér líka til að auka upplifun vallargesta,“ sagði Stefán Gunnarsson, markaðsstjóri KSÍ. 

Sól, bjór og stemning

Hann á von á góðri stemningu á vellinum og vonast til þess að bjórsalan verði til þess að fólk mæti fyrr á leikinn.

„Ég held að hún verði mjög fín. Sólin skín og ég veit af eigin reynslu hvernig Íslendingar eru þegar sést í sólina, þá veðrur fólk bjórþyrstara oft. Þetta verður vonandi til þess að fólk mæti líka aðeins fyrr á völlinn. Við munum opna klukkutíma fyrr eins og vanalega og þá er hægt að kaupa sér bjór og aðrar veitingar og þá getur fólk verið mætt tímanlega og komið sér fyrir í stúkunni og fylgst með upphitun.“

Leikur Íslands og Albaníu hefst klukkan 18:45 á Laugardalsvelli í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×