Fram kemur í tilkynningu að bæjarstjórn Garðabæjar hafi samþykkt ráðninguna á fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar í dag. Sigríður Hulda Jónsdóttir verður forseti bæjarstjórnar og Björg Fenger formaður bæjarráðs.
Almar er hagfræðingur frá Háskóla Íslands og með MBA gráðu frá London Business School. Hann hefur verið bæjarfulltrú Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ frá árinu 2014 og var oddviti flokksins í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum.
Undanfarið ár hefur Almar starfað hjá Reiknistofu lífeyrissjóða þar sem hann leiddi vinnu við breytingar á rekstri hugbúnaðarkerfis í eigu lífeyrissjóða. Hann starfaði hjá Krít fjármögnunarlausnum og síðar hjá Kviku á árunum 2017 til 2020 en á árunum 2009 til 2017 var hann framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda og hjá Samtökum iðnaðarins. Þar áður sinnti hann ýmsum stjórnunarstöðum hjá Íslandsbanka og síðar Glitni.
Almar er uppalinn í Garðabæ. Hann er kvæntur Guðrúnu Zoega, deildarstjóra á Hrafnistu Skógarbæ, og eiga þau saman börnin Tómas Orra, Ölmu Diljá, Fríðu Margréti, Baldur Frey og Bjarna Ragnar.