Í fréttum Stöðvar 2 var sýnt beint úr Þorskafirði og rætt við sveitarstjóra Reykhólahrepps og gröfustjóra Borgarverks, sem tók fyrstu skóflustunguna. Sjá mátti hvar búið er að ryðja skóginn á um áttatíu metra breiðu belti þar sem vegstæðið verður og hvar grafan hóf moksturinn í dag.
„Fyrir nokkrum árum síðan var þetta draumur einn. Það er bara þannig. Þetta er náttúrlega búið að velkjast í kerfinu í mörg, mörg ár. En nú eru allir hlutir að gerast,“ sagði Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri.
En hvernig tilfinning var það að hefja þetta umdeilda verk, vegagerð um Teigsskóg?
„Er þetta ekki bara þróun í vegamálum? Góð þróun. Að fá loksins færan veg hérna vesturúr,“ sagði Jóhann Haukur Sigurðsson gröfumaður.
En hafa heimamenn áhyggjur af því raski sem þarna verður á náttúrunni?
„Auðvitað hefur fólk áhyggjur af raski á náttúrunni. En það verður að vera jafnvægi milli manna og náttúru. Og við reyndum að finna bestu niðurstöðuna hvað það varðar,“ sagði Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri.
„Það verður að passa hverja þúfu og að allur staðargróður endurheimtist. Að hann komist í vegfláana og að þetta líti út fyrir að vera bara vegur á yfirborðinu,“ sagði Jóhann Haukur.
„Þetta hefur gífurlegar breytingar í för með sér. Við erum að sjá til dæmis alla þessa atvinnuuppbyggingu fyrir vestan, á suðurfjörðunum, og allan flutninginn með verðmæti, sem fer hérna í gegnum sveitarfélagið hjá okkur. Þetta er þvílík breyting þar.
Nú, hér búa íbúar, í sveitarfélaginu hjá okkur, það nær alveg að Skálanesi. Breytingin hjá því fólki er ekki lítil. Og inni í Gufudal og Djúpadal jafnvel. Þetta styttir allar leiðir inn á Reykhóla þar sem þetta fólk sækir þjónustu. Og jafnvel annað, til Reykjavíkur líka,“ segir sveitarstjórinn.
Ítarlegri umfjöllun má sjá í frétt Stöðvar 2: