Körfubolti

Gamli góði Thompson mætti til leiks þegar Golden State komst í úrslit

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Klay Thompson var stigahæstur á vellinum þegar Golden State Warriors sigraði Dallas Mavericks í nótt.
Klay Thompson var stigahæstur á vellinum þegar Golden State Warriors sigraði Dallas Mavericks í nótt. getty/Ezra Shaw

Golden State Warriors er komið í úrslit NBA-deildarinnar í körfubolta í sjötta sinn á síðustu átta árum eftir sigur á Dallas Mavericks í nótt, 120-110. Golden State vann einvígið 4-1.

Klay Thompson átti einn sinn besta leik eftir að hann sneri aftur eftir að hafa verið frá í tvö ár vegna meiðsla og skoraði 32 stig og setti niður átta þriggja stiga skot.

„Það er erfitt að lýsa þessu. Á þessum tíma í fyrra var ég bara rétt byrjaður að skokka. En núna líður mér eins og áður og er fullur þakklætis,“ sagði Thompson eftir leikinn.

Andrew Wiggins var með átján stig og tíu fráköst fyrir Golden State, Draymond Green sautján stig, Jordan Poole sextán og Stephen Curry skilaði fimmtán stigum og níu stoðsendingum.

Luka Doncic skoraði 28 stig og tók níu fráköst fyrir Dallas og Spencer Dinwiddie var með 26 stig.

Golden State mætir annað hvort Boston Celtics eða Miami Heat í úrslitunum. Boston er 3-2 yfir í einvígi liðanna í úrslitum Austurdeildarinnar og getur klárað það með sigri í sjötta leiknum í nótt.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×