Erlent

Telja bóluefni veita yngri börnum góða vernd

Kjartan Kjartansson skrifar
Upphaflega vildi Pfizer gefa börnum tvo skammta af bóluefni sínu en þeir dugðu ekki til fyrir leikskólabörn. Þriðji skammturinn virðist hafa gert gæfumuninn.
Upphaflega vildi Pfizer gefa börnum tvo skammta af bóluefni sínu en þeir dugðu ekki til fyrir leikskólabörn. Þriðji skammturinn virðist hafa gert gæfumuninn. AP/Rogelio V. Solis

Lyfjarisinn Pfizer fullyrðir að þrír skammtar af bóluefni hans gegn Covid-19 veiti börnum yngri en fimm ára öfluga vernd gegn einkennum veikinnar. Fyrirtækið sækist eftir bandarísk lyfjayfirvöld veiti leyfi fyrir notkun þess fyrir börn.

Bráðabirgðaniðurstöður úr tilraunum með bóluefnið á meðal barna á aldrinum sex mánaða til fjögurra ára benda til þess að þrír skammtar af því veiti vernd gegn einkennum í 80% tilfella. Hver skammtur sem börnin fá er aðeins einn tíundi hluti af þeim sem fullorðnir fá.

Sá fyrirvari er á niðurstöðunum að aðeins tíu börn af 1.600 sem tóku þátt í tilrauninni greindust smituð. Fjöldinn hefði þurft að ná 21 til þess að teljast gilt. Pfizer lofar að uppfæra niðurstöður sínar þegar frekari gögn liggja fyrir, að sögn AP-fréttastofunnar.

Lyfja- og matvælaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) fer nú þegar yfir gögn frá Moderna sem vill gefa börnum tvo skammta af bóluefni í sumar. Börn undir fimm ára aldri eru um átján milljónir talsins í Bandaríkjunum og eini hópurinn þar í landi sem er ekki gjaldgengur til að vera bólusettur gegn Covid-19.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×