Innlent

Á fjórða hundrað skjálfta frá mið­­nætti

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Land við fjallið Þorbjörn við Grindavík hefur risið um fjóra sentímetra á síðustu þremur vikum.
Land við fjallið Þorbjörn við Grindavík hefur risið um fjóra sentímetra á síðustu þremur vikum. Stöð 2/Egill

„Það hefur verið nokkur virkni í nótt. Það eru komnir rúmlega 330 skjálftar frá miðnætti og um klukkan þrjú urðu nokkrir um þrjá að stærð við Grindavík. Sá stærsti var 3,3.“

Þetta sagði Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við fréttastofu þegar hún var innt eftir nýjustu upplýsingum um skjálftavirkni á Reykjanesskaga, sem hefur verið nokkur að undanförnu.

„Virknin er bara áframhaldandi. Hún kemur bara í hviðum, minnkaði aðeins í gær en svo jókst hún aftur í gærkvöldi. Þetta er bara áframhaldandi virkni,“ sagði Sigríður Magnea.

Sigríður Magnea segir að land við Þorbjörn hafi risið um fjóra sentímetra á síðustu þremur vikum. Hún segir ljóst að muni gjósa á svæðinu, en ómögulegt sé að segja til um hvenær. Gögn Veðurstofunnar sýni fram á landris, sem orsakist líklega af kviku undir yfirborðinu, og mögulega gasi.

„Þannig að það er eitthvað að gerast, en hvort það endi með eldgosi einhvern tímann, það verður bara að koma í ljós. Þetta getur gengið til baka, hætt og stoppað eins og það gerði 2020, tímabundið. Svo hélt það áfram. Þetta getur tekið langan tíma, eins og þá tók það heilt ár. Nú er svo stutt síðan gosið hætti, hálft ár síðan, hvort það þurfi minna til svo það verði gos, við bara þekkjum það ekki,“ sagði Sigríður Magnea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×