Fyrri leikur liðanna endaði með 30-30 jafntefli og því var allt undir í leik kvöldsins. Gestirnir í PSG byrjuðu betur og náðu fljótt þriggja marka forskoti. Þeirri forystu héldu gestirnir út mest allan fyrri hálfleikinn og staðan var 17-19 þegar gengið var til búningsherbergja.
Heimamenn í Kiel tóku þó almennilega við sér í síðari hálfleik og liðið snéri leiknum sér í hag. Liðsmenn Kiel náðu þriggja marka forystu og voru komnir með yfirhöndina. Við tók jafn og spennandi lokakafli þar sem gestirnir náðu loksins að jafna metin þegar stutt var til leiksloka í stöðunni 31-31. Heimamenn skoruðu þá tvö mörk í röð áður en PSG setti seinasta mark leiksins og niðustaðan því 33-32 sigur Kiel.
Kiel er því seinasta liðið til að tryggja sér farseðilinn í undanúrslit Meistaradeildarinnar. Fyrir höfðu Veszprém, Kielce og Barcelona tryggt sæti sitt, en úrslitahelgin fer fram dagana 18. og 19. júní.