Viðskipti innlent

Íslandsbanki hækkar vexti óverðtryggðra húsnæðislána síðastur bankanna

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Birna Einarsdóttir er bankastjóri Íslandsbanka.
Birna Einarsdóttir er bankastjóri Íslandsbanka. Vísir/Vilhelm

Íslandsbanki hyggst hækka vexti óverðtryggðra húsnæðislána um 0,70 til 1 prósentustig, en þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum í dag.

Nánar tiltekið munu breytilegir vextir óverðtryggðra húsnæðislána hækka um 1,0 prósentustig. Fastir vextir óverðtryggðra húsnæðislána til 3 ára munu hækka um 0,70%, og sömu vextir til 5 ára hækka um 0,30 prósentustig. Þá hækka yfirdráttarvextir einstaklinga og fyrirtækja um 1,0 prósentustig. Breytilegir vextir óverðtryggðra húsnæðislána munu því hækka úr 4,65% í 5,65%.

Breytilegir vextir verðtryggðra húsnæðislána lækka hins vegar um 0,90 prósentustig og fastir vextir verðtryggðra húsnæðislána lækka um 0,15 prósentustig.

Bankinn tilkynnti þar að auki um hækkun vaxta á óverðtryggðum innlánareikningum um allt að 1,0 prósentustig og hækkun almenna veltureikninga um 0,10 prósentustig. Breytingarnar munu taka gildi á morgun, 19. maí.

Viðbúin þróun í kjölfar stýrivaxtahækkunar

Vaxtabreytingarnar eiga rót sína að rekja til hækkunar stýrivaxta Seðlabankans sem tilkynnt var um 4. maí síðastliðinn. Þá voru stýrivextir bankans hækkaðir um 1 prósentu og standa nú í 3,75%. Þessi þróun var því viðbúin innan bankanna en bæði Landsbankinn og Arion banki tilkynntu um svipaðar aðgerðir nýverið.

Þess ber að geta að bæði Íslandsbanki og Landsbankinn höfðu nýverið spáð því að verðbólga muni aukast á næstu mánuðum og ná um 7,5 prósentu verðbólgutoppi í maí, en fari svo hægt hjaðnandi.


Tengdar fréttir

Lands­bankinn hækkar vexti á ó­verð­tryggðum lánum

Vextir óverðtryggðra lána og sparireikninga hjá Landsbankanum hækka um 0,7 til eitt prósentustig á morgun. Bankinn vísar til þess að Seðlabankinn hafi hækkað vexti um eitt prósentustig fyrr í þessum mánuði. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×