Körfubolti

Vopnaður Rondo hótaði að drepa fyrrverandi konu sína fyrir framan börnin þeirra

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rajon Rondo hefur spilað í NBA-deildinni síðan 2006.
Rajon Rondo hefur spilað í NBA-deildinni síðan 2006. getty/Sarah Stier

Barnsmóðir Rajons Rondo, eins reyndasta leikstjórnanda NBA-deildarinnar í körfubolta, segir að hann hafi ógnað sér með byssu fyrir framan börn þeirra og hótað að drepa sig.

Konan óskaði eftir nálgunarbanni á Rondo á föstudaginn og það var samþykkt daginn eftir. Í gær greindi NBA svo frá því að deildin væri að afla sér meiri upplýsinga um málið.

Að sögn konunnar brást Rondo illa við þegar hún bað son hans, sem hann spilaði tölvuleik við, um að ganga frá þvotti. Rondo missti stjórn á skapi sínu, braut allt og bramlaði og rauk svo á dyr.

Þegar Rondo sneri aftur á heimilið stundarfjórðungi seinna var hann vopnaður byssu, ógnaði konunni og bað um að hitta strákinn. Rondo reif strákinn til sín meðan hann hélt enn á byssunni og öskraði á mæðginin.

Þegar foreldrar Rondos og lögreglan komu á svæðið var Rondo búinn að læsa sig inni með konunni og stráknum. Hann fór samt á endanum. Í kjölfarið sótti konan svo um nálgunarbann á Rondo. Hann má ekki koma nær henni en rúmum 150 metrum og þarf að láta öll skotvopn sem hann á af hendi tímabundið. Hún fékk einnig tímabundið forræði yfir börnum þeirra tveimur.

Hinn 36 ára Rondo var að klára sitt sextánda tímabil í NBA. Fyrri hluta tímabilsins lék hann með Los Angeles Lakers en var skipt til Cleveland Cavaliers í janúar. Rondo hefur bæði orðið meistari með Lakers og Boston Celtics.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×