Viðskipti innlent

Spá því að verðbólgan nái toppi í lok sumars

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Verðbólga hefur farið hækkandi að undanförnu.
Verðbólga hefur farið hækkandi að undanförnu. Vísir/Vilhelm

Bæði Íslandsbanki og Landsbankinn spá því að verðbólga muni aukast á næstu mánuðum. Íslandsbanki spáir 7,5 prósent verðbólgu í maí, Landsbankinn 7,6 prósent. Báðir bankar spá því að verðbólgan nái toppi í sumar, en fari svo hægt hjaðnandi

Verðbólgan mælist nú 7,2 prósent og hefur ekki mælst hærri í lengri tíma. Í spá Íslandsbanka, sem gefin var út í gær kemur fram að bankinn spái því að tólf mánaða verðbólgu mælist 7,5 prósent í maí.

„Bæði innflutt verðbólga og hækkandi íbúðaverð vega þungt til hækkunar á vísitölunni samkvæmt okkar spá en á móti lækka flugfargjöld,“ segir í spá bankans.

Landsbankinn er örlítið svartsýnni. Í Hagsjá bankans kemur fram að bankinn spái því að tólf mánaða verðbólga mælist 7,6 prósent í maí.

„Þeir liðir sem vega langmest til hækkunar verðlags milli apríl og maí eru annars vegar matur og drykkur og hins vegar reiknuð húsaleiga. Áhrif þessara liða eru samtals 0,57% af heildarhækkun vísitölunnar upp á 0,78%. Samkvæmt verðkönnun okkar hækkaði bensínverð um 2,2% og eru áhrif þess til hækkunar VNV 0,08%,“ segir í Hagsjánni.

Landsbankinn spáir því einnig að verðbólgan muni á næstu mánuðum toppa í 8,2 prósent undir lok sumars en fari svo hjaðnandi í hægum takti. Íslandsbanki spáir því hins vegar að verðbólgan toppi í 8,4 prósent í lok sumars, en fari svo hægt lækkandi.

Lesa má spá Íslandsbanka hér og Landsbankans hér.


Tengdar fréttir

Gylfi segir leiðréttingu á eignamarkaði yfirvofandi

Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, segir að verðbólgan sé ekki aðeins á húsnæðismarkaði heldur sé hún víðfeðmari en oft áður. Eftirspurn sé mikil en mörg vandamál blasi við á framboðshliðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×