Körfubolti

Blóðug stórstjarna og varnartilþrif gerðu út af við Boston

Sindri Sverrisson skrifar
Giannis Antetokounmpo átti 40 stiga leik í nótt.
Giannis Antetokounmpo átti 40 stiga leik í nótt. AP/Charles Krupa

Giannis Antetokounmpo skoraði 40 stig og Jrue Holiday varðist fullkomlega á ögurstundu þegar meistarar Milwaukee Bucks náðu að vinna Boston Celtics 110-107 og komast í 3-2 í einvígi liðanna í NBA-deildinni í körfubolta.

Milwaukee getur þar með tryggt sér sigur í einvíginu á heimavelli annað kvöld og komist í úrslit austurdeildarinnar. Golden State Warriors eru sömuleiðis 3-2 yfir gegn Memphis Grizzlies þrátt fyrir risatap í nótt.

Antetokounmpo var orðinn blóðugur í andlitinu, eftir högg frá liðsfélaga sínum Pat Connaughton, þegar hann setti niður mikilvægan þrist og minnkaði muninn í 105-102. Jrue Holiday jafnaði svo metin þegar 42 sekúndur voru eftir en Boston hafði mest verið með 14 stiga forskot í fjórða leikhlutanum.

Lokasekúndur leiksins voru svo afar spennandi en það sem færði Milwaukee sigurinn voru varnartaktar Holidays á síðustu tíu sekúndunum, þegar hann varði skot Marcus Smart og stal svo boltanum af honum í næstu sókn Boston.

Eins og fyrr segir skoraði Antetokounmpo alls 40 stig og hann tók 11 fráköst. Holiday skoraði 24 stig, tók átta fráköst og gaf átta stoðsendingar.

Hjá Boston skoruðu Jayson Tatum og Jaylen Brown samtals 60 stig en nú þarf liðið að vinna í Milwaukee til að tryggja sér oddaleik á heimavelli á sunnudaginn.

Risasigur Skógarbjarnanna

Þrátt fyrir fréttirnar slæmu af Ja Morant, leikstjórnanda Memphis Grizzlies, vann liðið risasigur á Golden State, 134-95, á heimavelli. Jaren Jackson Jr., Desmond Bane og Tyus Jones skoruðu 21 stig hver.

Liðin mætast að nýju annað kvöld í San Francisco en þar hafa Stríðsmennirnir ekki tapað í síðustu sjö leikjum sínum. Klay Thompson skoraði 19 stig fyrir þá í gærkvöld, Jonathan Kuminga 17 og Stephen Curry 14.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×