Körfubolti

Uppselt á þriðja leik Vals og Tindastóls

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stemmningin á fyrstu tveimur leikjunum í úrslitum Subway-deildar karla hefur verið mögnuð og verður væntanlega ekkert síðri á morgun.
Stemmningin á fyrstu tveimur leikjunum í úrslitum Subway-deildar karla hefur verið mögnuð og verður væntanlega ekkert síðri á morgun. vísir/bára

Uppselt er á þriðja leik Vals og Tindastóls í úrslitum Subway-deildar karla í Origo-höllinni annað kvöld.

Einnig var uppselt á fyrsta leikinn á Hlíðarenda á föstudaginn og áhuginn hefur ekkert minnkað síðan þá. Nokkuð hundruð miðar seldust til að mynda á meðan öðrum leiknum á Sauðárkróki á mánudagskvöldið stóð.

Fleiri miðar voru í boði á þriðja leikinn en þann fyrsta en Svali Björgvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Vals, var ekki með nákvæma tölu á því. Hann sagði takmarkað hvað væri hægt að koma mörgum áhorfendum inn í Origo-höllinni og Valsmenn væru í samstarfi við slökkviliðið vegna þess.

Óánægju hefur gætt meðal stuðningsmanna Tindastóls út af skiptingu á miðum á leikinn annað kvöld. En Dagur Þór Baldvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls, segir að Valsmenn hafi tjáð Stólunum að þeir hafi látið þá fá alla þá miða sem þeir hafi átt rétt á. Gestaliðið á venjulega rétt á þrjátíu prósent miðafjöldans.

Dagur gerir ráð fyrir að fimm til sex hundruð stuðningsmenn Tindastóls verði á leiknum á Hlíðarenda annað kvöld.

Leikur Vals og Tindastóls hefst klukkan 20:30 á morgun og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×