Rússneski gasrisinn Gazprom segist hafa fengið tilkynningu frá Úkraínu um að gasflutningum um Sokhranivka-tenginguna yrði hætt nú í morgunsárið. Það væri hins vegar ómögulegt að beina gasinu um aðra tengistöð vestar, líkt og Úkraínumenn hefðu lagt til.
Hingað til hafa átökin í Úkraínu ekki haft áhrif á flutning gass en um þriðjungur alls gass sem fer um Úkraínu á leið frá Rússlandi til Evrópu fer um Sokhranivka-tenginguna. Hversu mikið gas það er hefur ekki komið fram.
Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála í Úkraínu í allan dag.
Aðrar vendingar:
- Selenskí Úkraínuforseti fagnaði því í ávarpi sínu í kvöld að fulltrúadeild Bandaríkjaþings hefði samþykkt fjárveitingu upp á rúma fimm þúsund milljarða króna til styrktar Úkraínu.
- Úkraínumenn hafa í dag birt myndefni frá Austur-Úkraínu sem á að sýna stað þar sem Rússar reyndu á dögunum að ná fótfestu á árbakka sem Úkraínumenn stjórnuðu.
- Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, segir að vilji Úkraínumanna til að eiga í viðræðum við Rússa fari þverandi. Hann minnki með hverju ódæði rússneskra hermanna gegn úkraínskum borgurum.
- Gagnsókn Úkraínuhers í Kharkiv-héraði virðist bera árangur. Úkraínumenn segjast hafa endurheimt nokkra bæi úr höndum Rússa og harðir bardagar geisa um Kharkiv-borg.
- Neðri deild bandaríska þingsins hefur samþykkt að veita Úkraínu 39,8 milljarða dala í fjárhagsaðstoð. 368 greiddu atkvæði með frumvarpinu og 57 á móti.
- Enn er barist um Snákaeyju en Rússar eru ítrekað sagðir hafa freistað þess að styrkja stöðu sína á eyjunni. Bretar segja birgðaskip Rússa nú njóta takmarkaðrar verndar á Svartahafi, eftir að þeir hörfuðu í kjölfar þess að Moskvu var sökkt. Ef Rússum tækist hins vegar að ná Snákaeyju og koma upp vopnakerfum þar, gæti það tryggt þeim yfirráð yfir norðuvesturhluta hafsins.
- Og þess ber að geta að Úkraína komst áfram úr fyrri undankeppni Eurovision í gærkvöldi en Rússum var neitað um þátttöku vegna innrásarinnar.
