Moise var ráðinn af dögum á heimili sínu í Port-au-Prince í júlí á fyrra. Vopnaðir menn réðust inn og skutu hann til bana. Þeir eru taldir hafa verið kólumbískir og bandarískir málaliðar.
John Joel Joseph, fyrrverandi öldungadeildarþingmaður, var handtekinn á Jamaíku í janúar og var framseldur til Bandaríkjanna í síðustu viku. Hann kom fyrir dómara í Míamí á Flórída í gær þar sem honum var kynnt ákæra. Joseph var pólitískur keppinautur Moise.
Bandarískir saksóknarar segja að ráðabrugg sem Joseph hafi átt aðild að hafi upphaflega snúist um að ræna forsetanum með því að birta honum falsaða handtökuskipun. Þegar samsærismönnunum tókst ekki að útvega flugvél til að flytja forsetann frá eyjunni hafi þeir ákvæðið að myrða hann í staðinn. Þeir eiga að hafa lagt á ráðin um morðið í Míamí og því telur bandaríska dómsmálaráðuneytið sig hafa lögsögu til að sækja þá til saka, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Joseph á að hafa séð um að útvega bíla og reynt að finna vopn fyrir morðingjana. Hann á einnig að hafa hitt hluta samsærismannanna daginn fyrir morðið. Grunur lögreglunnar á Haítí beindist fljótt að Joseph daganna eftir morðið.
Tveir aðrir karlmenn eru ákærðir vegna morðsins í Bandaríkjunum, kólumbískur uppgjafarhermaður og haítísk-síleskur kaupahéðinn.