Fótbolti

Argentína og Brasilía þurfa að mætast á nýjan leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leiknum 5. september.
Úr leiknum 5. september. MB Media/Getty Images

Ákveðið hefur verið að Argentína og Brasilía þurfti að mætast aftur til að fá niðurstöðu í leik liðanna í undankeppni HM karla í fótbolta. Leikurinn átti að fara fram 5. september síðastliðinn en var stöðvaður af brasilískum lögregluþjónum.

Leikurinn þann 5. september var aðeins sex mínútna gamall þegar brasilíska lögreglan óð inn á völlinn og vildi vísa fjórum leikmönnum Argentínu úr landi þar sem þeir áttu að vera í sóttkví. Segja má að atburðarásin hafi verið vægast sagt farsakennd.

Þessir fjórir leikmenn leika allir á Englandi, en fólk sem kemur þaðan á að fara í sóttkví við komu til Brasilíu. Leikmennirnir eru Giovani Lo Celso og Cristian Romero, úr Tottenham, og Emiliano Martínez og Emiliano Buendía, úr Aston Villa.

Þeir þrír fyrrnefndu voru allir í byrjunarliði Argentínu en Buendía var ekki í leikmannahópi Argentínu. Þeim var skipað að yfirgefa völlinn og leikurinn því í upplausn.

Leikurinn var í kjölfarið flautaður af og Argentínumenn enduðu á að loka sig inn í búningsklefa sínum.

Nú hefur Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, ákveðið að leikurinn verði spilaður og að þessu sinni kláraður. Ekki kemur fram hvenær hann mun fara fram en bæði Argentína og Brasilía hafa tryggt sér sæti á lokamóti HM í Katar síðar á þessu ári.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×