Samkvæmt nýbirtum ársreikningi Motormax, sem keypti þrotabú Bílanausts árið 2019, tapaði félagið 51 milljón á síðasta ári samanborið við 72 milljóna króna tap árið 2020.
Í skýrslu stjórnar segir að yfirtakan hafi haft í för með sér töluverðan kostnað sem nú sér fyrir endann á. „Áætlanir gera ráð fyrir hagnaði af rekstri félagsins árið 2022 með einföldun rekstrarins og sölu á þjónustuhluta hans.“
Rekstrarsaga Bílanausts nær aftur til ársins 1962 en félagið sameinaðist N1 árið 2007. Sex árum síðar seldi olíufélagið Bílanaust til eignarhaldsfélagsins Efstasunds, sem var að stærstu leyti í eigu fjölskyldunnar sem er jafnan kennd við heildverslunina Mata.
Bílanaust var þá stærsta varahlutafyrirtæki landsins með árstekjur upp á rúma 2,2 milljarða króna, tvöfalt meiri en helsti keppinauturinn, Stilling. En samningar í tengslum við kaupin af N1 drógu dilk á eftir sér.
Afskrifa þurfti stóran hluta af vörubirgðum sem fylgdu með kaupunum þar sem hann samanstóð af varahlutum í gamla bíla. Auk þess var Bílanaust samningbundið N1 um vöruhýsingu og hafði því lítinn sveigjanleika til að afhenda vörur. Það gerði félaginu erfitt fyrir í samkeppni við önnur varahlutafyrirtæki á borð við Stillingu og AB varahluti.
Þá hafði aukin áhersla N1 á smásölu á kostnað verkstæðaþjónustu á bensínstöðvum fyrirtækisins á síðustu árum veruleg áhrif á viðskipti olíufélagsins við Bílanaust og þar af leiðandi veltuna.
Á árunum 2013 og 2018 helmingaðist velta fyrirtækisins, uppsafnað tap nam 600 milljónum króna og eigið féð var orðið neikvætt um rúmlega hálfan milljarð króna. Samningsumleitanir við Arion banka báru ekki árangur og var félagið að endingu tekið til gjaldþrotaskipta.
Bílanaust hefur ekki skilað hagnaði frá því að reksturinn var seldur út úr N1 og raunar þarf að fara aftur til ársins 2004 til þess finna arðbært rekstrarár.
Fram kemur í ársreikningi Motormax að hlutaféð hafi verið lækkað um 200 milljónir til jöfnunar á tapi fyrri ára en í kjölfarið var selt nýtt hlutafé að fjárhæð 100 milljónir. Félagið er áfram í fullri eigu UK fjárfestinga, sem aftur er í eigu Úlfars Steindórssonar og Kristjáns Þorbergssonar, aðaleigenda Toyota á Íslandi.