Sérfræðingar við Suðurskautsstofnun Argentínu (IAA) vara við því að keisaramörgæsir geti ekki komið ungum sínum á legg ef hafið við Suðurskautslandið leggur seinna en vanalega eða ísinn bráðnar óvenjusnemma.
Æxlunarferli keisaramörgæsanna er það lengast í mörgæsaríkinu. Ungarnir klekjast úr eggi að vetri til og þurfa fuglarnir traustan hafís frá apríl fram í desember. Eftir að unginn kemur úr eggi þarf annað foreldrið að halda hita á honum á milli fóta sér þar til hann fær fullar fjaðrir.
„Ef sjór kemst að nýfæddum mörgæsum sem eru ekki tilbúnar að synda og hafa ekki vatnsheldan fjaðurham gætu þær drepist úr kulda eða drukknað,“ segir Marcela Libertelli, líffræðingur hjá IAA sem hefur rannsakað þúsundir mörgæsa í tveimur nýlendum þeirra á Suðurskautslandinu, við Reuters-fréttastofuna.
Þetta hefur þegar gerst í Halley-flóanýlendunni við Weddell-haf þar sem allir ungar drápust þrjú ár í röð.
Harmleikur fyrir plánetuna
Libertelli segir að þróist loftslag í samræmi við líkön eigi mörgæsarnýlendur á milli sextugustu og sjötugustu breiddargráðu suður eftir að þurrkast út á næstu þrjátíu til fjörutíu árum. Gert er ráð fyrir að áfram hlýni á Suðurskautslandinu á næstu árum auk þess sem reiknað er með óvenjulegri úrkomu og bráðnun íss.
„Það er harmleikur fyrir plánetuna að hvaða dýrategund sem er hverfi. Það skiptir ekki máli hvort hún sé lítil, stór, planta eða dýr. Það er missir fyrir líffræðilegan fjölbreytileika,“ segir hún.
Keisaramörgæsin er ein tveggja mörgæsartegunda sem er landlæg á Suðurskautslandinu. Libertelli segir að það gæti haft alvarleg áhrif á vistkerfið á þessum hjara veraldar þar sem fæðukeðjur eru stuttar ef keisaramörgæsirnar heyrðu sögunni til.
Aðrar athafnir manna hafa einnig skaðleg áhrif á keisaramörgæsastofninn, þar á meðal tíðar siglinga ferða- og fiskimanna sem trufla átuna sem mörgæsirnar og fleiri dýrategundir byggja afkomu sína að miklu leyti á.