Í fréttum Stöðvar 2 sagði oddviti Miðflokksins sinn flokk sér á báti í flugvallarmálinu.
„Við erum bara þar í dag að Miðflokkurinn er eini flokkurinn sem ætlar sér að standa vörð um flugvöllinn í Vatnsmýri,“ segir Ómar Már Jónsson.

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, tekur ekki undir þetta.
„Það er nú stefna sjálfstæðismanna að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýri, þar til annar jafngóður staður hefur fundist. Þannig að ég get nú ekki alveg tekið undir með miðflokksmönnum þarna,“ segir Hildur.
Miðflokksmaðurinn vitnar til fundar sem Samtök um bíllausan lífsstíl efndu til í síðasta mánuði. Kjarninn segir að þar hafi aðeins frambjóðandi Miðflokksins tekið flugvöll fram yfir byggð í Vatnsmýri.
Framsóknarmaðurinn Einar Þorsteinsson hafi þó haft sama fyrirvara og Hildur og sagt að ef nýr staður fyndist fyrir flugvöll væri frábært að byggja í Vatnsmýrinni.

Formaður Framsóknarflokksins, innviðráðherrann Sigurður Ingi, var hins vegar skýr með það í gær að borgin fengi ekki að byggja í Skerjafirði.
En hver er afstaða Hildar til Nýja Skerjafjarðar?
„Við höfum stutt einhverja uppbyggingu í Skerjafirði, bara látlausa uppbyggingu. En þetta magn, sem nú er kynnt, er auðvitað gríðarlega mikið. Og það gengur í rauninni gegn flugvallarsvæðinu og það ógnar flugöryggi á svæðinu sömuleiðis.
Þannig að ég tek undir með ráðherra, og ég tek undir með Isavia, áhyggjur þeirra, sömuleiðis,“ svarar Hildur.
Hún er þó ekki tilbúin að taka undir þá afstöðu Sigurðar Inga að frekara land verði ekki tekið af flugvellinum á meðan nýr er ekki kominn.

„Ég hef ekki séð afdráttarlausa afstöðu Sjálfstæðisflokksins til flugvallarins. Og ég hef dálítið verið að leita eftir því; hvar er þessi stuðningur við flugvöllinn? Og ég sé hann ekki. Ekki nema hjá okkur, Miðflokknum,“ segir Ómar.
En kemur til greina að mati Hildar að innanlandsflugið verði flutt til Keflavíkur?
„Ég hef ekki séð neina greiningu á þeim kosti. Ég myndi vilja sjá hana áður en ég tæki afstöðu til þess. En þangað til þá er hann auðvitað í Vatnsmýri,“ svarar Hildur Björnsdóttir.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: