Innlent

Þarf að greiða 32 milljónir í sekt vegna skatta­laga­brota

Atli Ísleifsson skrifar
Úr dómsal í Héraðsdómi Norðurlands eystra á Akureyri.
Úr dómsal í Héraðsdómi Norðurlands eystra á Akureyri. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt mann til greiðslu tæplega 32 milljóna króna í sekt til ríkissjóðs vegna meiriháttar brota gegn skattalögum.

Maðurinn var sakfelldur af ákæru um að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum einkahlutafélags fyrir rekstrarárin 2015 til 2019, samtals að upphæð 14,7 milljónir króna. Sömuleiðis var maðurinn ákærður fyrir að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, samtals 2,5 milljónum króna.

Loks var hann ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa aflað einkahlutafélagi sínu ávinnings af áðurnefndum brotum, samtals að fjárhæð 17,2 milljónir króna, og nýtt ávinninginn í þágu rekstrar félagsins. Við fyrirtöku ákvað ákæruvaldið hins vegar að falla frá þeim ákærulið sem sneri að peningaþvætti.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að maðurinn hafi hreint sakavottorð og játaði hann sök. Dómari í málinu ákvað að sekt skuli ákvarðast tvöföld sú fjárhæð sem hann stóð ríkissjóði ekki skil á réttum tíma. „Refsing ákærða er ákveðin 31.900.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Skal 360 daga fangelsi koma í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa,“ segir í dómnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×