Lífið

„Eins krefjandi og það getur verið þá er það alveg jafn skemmtilegt“

Elísabet Hanna skrifar
Tanja er dugleg að ferðast með börnin sín.
Tanja er dugleg að ferðast með börnin sín. Aðsend.

Tanja Sól Valdimarsdóttir heldur uppi ferðamiðli þar sem hún deilir skemmtilegum ráðum og stöðum til þess að ferðast með börn. Hún og maðurinn hennar Sverrir Arnar Friðþjófsson eru dugleg að elta ævintýrin með börnin á bakinu.

Blaðamaður setti sig í samband við Tönju og fékk að heyra meira um lífið, ævintýrin og ferðalögin.

Hvað varstu að gera áður?

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á ferðamennsku og ferðast mikið alla mína ævi. Eftir menntaskóla ákvað ég að taka mér hlé á námi og ferrðaðist aðeins um heiminn, vann m.a í bandaríkjunum og noregi. Þegar ég kom heim ákvað ég að fara í ferðamálafræði í háskólanum og kláraði námið í byrjun árs 2020. 

Ég var að vinna á skrifstofu í ferðaþjónustufyrirtæki samhliða náminu en lauk starfii þegar ég átti eldri strákinn minn. Hann var fyrirburi og fæddist á 30 viku (10 vikum fyrir settan dag). Ég varð svo fljótlega aftur ólétt af stelpunni minni og mátti þá ekkert vinna á meðgöngunni þar sem ég var í áhættumæðravernd. Ég ákvað þá bara að reyna að byggja upp mitt eigið fyrirtæki og hef verið að vinna að því síðan.

Hvernig kviknaði hugmyndin að miðlinum?

Eftir að ég og unnusti minn kynntumst stofnuðum við fljótt saman instagram aðgang sem snéri að ferðalögunum okkar. Við höfum bæði mikinn áhuga á ferðalögum og ljósmyndum og höfum ferðast mikið saman síðan við kynntumst, bæði innanlands og erlendis. 

Á ferðalögum okkar tökum við mikið af myndum og við notuðum þennan aðgang til að deila myndunum frá okkur. Eftir að við áttum börnin breyttust ferðalögin okkar mikið ég byrjaði að deila meira af ferðaráðum og persónulegri myndum á aðganginn minn á meðan hann deildi meira af landslags ljósmyndum á sinn aðgang. 

Ég fann strax fyrir miklum áhuga fyrir þessu efni og því hef ég haldið áfram að byggja upp aðganginn minn. Ég elska að deila upplýsingum um fallega landið okkar með fólki og gera fólki auðveldara fyrir þegar það ferðast með börnin sín.

Hvernig voru fyrstu skrefin í að framkvæma hana?

Þetta hefur einhvern vegin bara þróast með árunum. Í rauninni er þetta bara minn persónulegi instagram aðgangur sem ég stofnaði þegar allir voru að fá sér instagram. Ég hef bara lagt áherslu á að búa til efni sem gefur fólki innblástur og er upplýsandi. Út frá því hef ég fengið hugmyndir af t.d fyrirtækinu okkar Road to Iceland og Krakkar á ferð og flugi. 

Road to Iceland er ferðaþjónustufyrirtæki fyrir erlenda ferðamennn en Krakkar á ferð og flugi er facebook hópur, bæklingar og námskeið sem ég hef unnið að. Í facebook hópnum deilum ég og hópmeðlimir góðum ráðum okkar á milli tengdum ferðalögum, afþreyingu og útiveru með börnum. Í bæklingunum tek ég saman fullt af sniðugum hugmyndir af skemmtilegum stöðum og afþreyingu um allt land. 

Ég hef útbúið kort sem fólk getur nýtt sér, lista yfir það sem er gott að taka með sér í útilegu og sumarbústað, deili alls konar ráðum og þeirri reynslu sem ég hef öðlast. Ég elska að skapa mitt eigið og brenn fyrir öllu ferðatengdu, þá sérstaklega með börnum.

Hvernig þróaðist það í fyrirtæki og hvernig er það?

Mér finnst svo gaman að finna fyrir stuðningnum frá fylgjendum mínum og það hvetur mig áfram að skapa meira. Við vorum búin að vera með ákveðnar hugmyndir á lofti og svo einn daginn ákváðum við unnusti minn að stofna fyrirtækið okkar Road to Iceland og fórum á fullt í þá vinnu. 

Mig langaði svo að gera eitthvað meira úr mínum miðli og finna leið til að deila ráðum og upplýsingum á einfaldan hátt afþví það getur verið svolítið flókið að finna upplýsingar á instagram. Ég ákvað því einn daginn að búa til facebook hópinn og bæklingana og lét bara verða að því. 

Ég held að lykillinn að því að þetta gangi allt upp hjá okkur með tvö lítil börn er að þetta er áhugasviðið okkar og það sem við brennum fyrir. Það er svo gaman að skapa eitthvað sem maður hefur áhuga á og gott að finna að það hjálpar öðrum. Það gefur manni tilgang.

Hvað fannst þér breytast við það að ferðast eftir að þú eignaðist börn?

Ferðalögin okkar breyttust mjög mikið eftir að við eignuðumst börn. Þegar maður ferðast með börnum verður maður að vera með meira öryggi, þolinmæði og maður ferðast hægar. Áður fyrr þegar ég og unnustinn minn vorum að ferðast ein þá fórum við jafnvel hringinn á þremur dögum og sváfum í bílnum. Maður gerir það ekki með börn, þá stoppar maður oftar og leyfir þeim að leika sér, hvíla og svona. 

Maður þarf að vera betur undirbúinn, með nóg af mat, góðan búnað og örugga næturgistingu. Maður fer líka á öðruvísi staði t.d vorum við unnusti minn ekki heimsækja dýragarða og leiksvæði þegar við ferðuðumst ein en núna leitum við alltaf eftir því í hverjum landshluta þannig að krakkarnir njóti sín. 

Maður leitar líka að tjaldsvæðum með afþreyingu fyrir krakkana og heitu vatni og svona, það er mikilvægt að hafa þessa hluti á hreinu til að gera ferðalagið auðveldara og skemmtilegra fyrir alla.

Heldur þú að fólk sér stundum að mikla það fyrir sér?

Bæði og, það er krefjandi að fara í ferðalag með lítil börn, það krefst undirbúnings og maður þarf að vita hvað maður þarf að hafa meðferðis og svo framvegis. Hins vegar finnst mér fólk stundum vera hrætt við að taka á skarið, sérstaklega að fara í útilegu. En ég held að það sé bara vegna þess að það vantar svo mikið af upplýsingum um þetta hér á íslandi. 

Ef ekki væri fyrir pabba og mína ferðareynslu á mínum yngri árum hefði ég ekki hugmynd um hvað ég væri að gera. Þess vegna langar mig svo mikið að deila þessum upplýsingum á mínum miðlum þannig að fólk þori að taka á skarið afþví þetta er svo dásamlegt. 

Ég er t.d núna að halda námskeið sem heitir „með barnið á bakinu" og snýr að því hvað er gott að vita þegar gengið er með barnið sitt í burðarpoka og svo förum við í göngur saman. Það væri ótrúlega sniðugt að gera líka útilegu námskeið fyrir barnafólk, klárlega eitthvað sem mig langar að gera!

Hefur þér aldrei fundist erfitt að fara í svona ævintýri með litla unga?

Jú svo sannarlega.

„Eins krefjandi og það getur verið þá er það alveg jafn skemmtilegt.“

Hvað er það skemmtilegasta við að ferðast með börnin?

Það margt svo skemmtilegt við það að ferðast með börn. Gleðin, uppgötvanirnar, færnin, brosin og hamingjan. Að gera eitthvað alveg nýtt, fara á stað sem maður sjálfur eða börnin hafa ekki komið á áður og upplifa eitthvað glænýtt.

Að skapa minningar með mínu allra uppáhalds fólki, góðar jafnt sem ekki eins góðar. Þetta er það sem gefur lífinu lit. Á síðasta ári ákváðum við t.d að fara í ferðalag og við vorum búin að fá frí í vinnu þannig við drifum okkur af stað, nema hvað það var rigning um allt land og við enduðum á því að vera í rigningu í þakgili í 3 daga, eins blautt og það var og krefjandi á þeim tíma að reyna að láta öllum líða vel og þerra fötin er þetta minning sem fær mig til að brosa í dag.

Hvernig viðbrögð hefur miðillinn verið að fá?

Ég er svo þakklát fyrir þau viðbrögð sem miðillinn hefur fengið. Ég elska að heyra frá því þegar fólk fær hugmyndir af afþreyingu mín vegna og finnst svo gaman hvað það eru margir búnir að kaupa bæklingana mína og skrá sig í hópinn á facebook. Þetta hvetur mig svo mikið til að halda áfram að gera það sem ég er að gera. 

„Ég er svo glöð að fólk leiti til mín þegar því vantar ráð varðandi ferðalög með börn!“

Er eitthvað skemmtilegt á döfinni?

Já. Það er mikið skemmtilegt á döfinni. Núna er ég á fullu að selja bæklingana fyrir sumarið og svo er ég að fara að halda námskeiðið „með barnið á bakinu" í byrjun maí. Upplýsingar um það eru einnig á heimasíðunni minni. Síðan er Road to Iceland að fara vel af stað og við höldum áfram að selja ferðir þar.

Svo er ég með svo mikið af hugmyndum í tengslum við „Krakkar á ferð og flugi" sem mig langar að koma í framkvæmd og er spennt að sjá hvernig það þróast! 

„Ég ætla allavega að halda áfram á þessari braut, mér finnst ég hafa fundið hilluna mína í lífinu.“

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×