Körfubolti

Golden State þraukaði eftir að Green var hent út úr húsi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Klay Thompson skoraði sigurkörfu Golden State Warriors gegn Memphis Grizzlies.
Klay Thompson skoraði sigurkörfu Golden State Warriors gegn Memphis Grizzlies. getty/Justin Ford

Þrátt fyrir að Draymond Green hafi verið rekinn út úr húsi í fyrri hálfleik vann Golden State Warriors Memphis Grizzlies, 116-117, í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Vesturdeildar NBA í gær.

Klay Thompson kom Golden State yfir, 116-117, með því að setja niður þriggja stiga skot þegar 36 sekúndur voru eftir. Hann klikkaði síðan á tveimur vítaskotum þegar 6,7 sekúndur lifðu leiks og Memphis fékk því möguleika á að tryggja sér sigurinn í lokasókn sinni. Ja Morant fékk boltann en Thompson og Gary Payton II vörðust vel og skotið geigaði.

Jordan Poole setti persónulegt met í úrslitakeppni með því að skora 31 stig. Stephen Curry skoraði 24 stig, Andrew Wiggins sautján og Thompson fimmtán.

Morant var stigahæstur hjá Memphis og á vellinum með 34 stig. Hann tók einnig níu fráköst og gaf tíu stoðsendingar. Jaren Jackson yngri skoraði 33 stig og tók tíu fráköst.

Giannis Antetokounmpo var með þrefalda tvennu þegar Milwaukee Bucks tók forystuna í einvíginu gegn Boston Celtic í undanúrslitum Austurdeildarinnar með 89-101 sigri í Boston.

Grikkinn var með 24 stig, þrettán fráköst og tólf stoðsendingar. Jrue Holiday skoraði 25 stig.

Jayson Tatum skoraði 21 stig fyrir Boston en hitti aðeins úr sex af átján skotum sínum. Enginn annar leikmaður Boston skoraði meira en tólf stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×