Innlent

For­stjóri Sjúkra­trygginga þver­tekur fyrir hörku í eftir­liti

Árni Sæberg skrifar
María Heimisdóttir er forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.
María Heimisdóttir er forstjóri Sjúkratrygginga Íslands. Stöð 2/Egill

Forstjóri Sjúkratrygginga Íslands kannast ekki við að aukin harka sé komin í eftirlit stofnunarinnar með veitendum heilbrigðisþjónustu

Formaður Læknafélags Reykjavíkur sagði í gær að Sjúkratryggingar Íslands hefðu farið mjög harkalega fram í eftirliti og endurkröfum sínum á hendur læknum og stofum undanfarið.

María Heimisdóttir forstjóri Sjúkratrygginga segist ekki kannast við að stofnunin beiti aukinni hörku heldur sé hún aðeins að framfylgja lögbundinni eftirlitsskyldu sinni.

„Sjúkratryggingar hafa auðvitað skyldu til að sinna eftirliti og í ljósi þess hvað við greiðum út mikið í sjúkratryggingar, við erum að greiða hátt í 130 milljarða á ári í alls konar tryggingar og þjónustu, þá er auðvitað nauðsynlegt að hafa eftirlit með því. Við höfum verið gagnrýnd í gegnum tíðina fyrir að sinna eftirliti ekki nægilega vel, meðal annars benti Læknafélagið einhvern tímann á það. Við stofnuðum nýja eftirlitsdeild fyrir einu og hálfu ári síðan og við teljum það algjörlega nauðsynlegt í okkar starfi,“ segir María.

Hún segir eftirlitsdeildina hafa bætt skipulag eftirlits stofnunarinnar og nú séu skýrari verklagsreglur til staðar en áður.

Læknar fái að svara fyrir sig

María segir að það heyri til undantekninga að Sjúkratryggingar þurfi að hafa afskipti af læknum og þau tilvik séu langoftast leyst farsællega með samkomulagi.

„Í öllum eftirlitsmálum þá er það algjör regla að þeir sem eru til eftirlits fái að leggja fram sínar skýringar og koma frekari upplýsingum á framfæri. Oft leysast mál þá ef koma fram góðar skýringar. Ef að það gerist ekki, sem er alltaf í einhverjum tilvikum, að það virðast ekki vera eðlilegar skýringar á einhverri reikningsgerð, þá fer bara málið í sinn farveg. En ég held að það sé ekki hægt að segja að við göngum fram af mikilli hörku við innheimtu,“ segir María.


Tengdar fréttir

Hótar að velta endur­kröfu yfir á skjól­stæðinga sína

Sjúkratryggingar Íslands hafa sent frá sér tilkynningu þess efnis að sjúklingar sem njóta greiðsluþátttöku stofnunarinnar eiga ekki að bera fjárhagslegt tjón af endurkröfum sem stofnunin kann að gera á veitendur heilbrigðisþjónustu vegna óviðeigandi reikningsgerðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×