Viðskipti innlent

Icelandair boðar aftur tengi­flug milli Akur­eyrar og Kefla­víkur

Eiður Þór Árnason skrifar
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. Vísir/Vilhelm

Icelandair stefnir að því hefja á ný flugferðir milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar og stórauka samtengingu innan- og utanlandsflugs.

Gangi áform Icelandair eftir verður hægt að fljúga til og frá 42 áfangastöðum frá Norðurlandi með stuttu stoppi á Keflavíkurflugvelli yfir sumartímann í náinni framtíð.

Þetta kom fram í erindi Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair Group, á ráðstefnu Markaðsstofu Norðurlands í dag sem haldin var í Menningarhúsinu Hofi.

Samkvæmt framtíðarsýninni verður flogið fram og til baka milli Akureyrar og Keflavíkur tvisvar á dag til að þjónusta farþega á leið til og frá Evrópu og Ameríku.

Bogi sagði að það væri sameiginlegt verkefni að stuðla að jafnari dreifingu ferðamanna um landið samhliða vexti ferðaþjónustunnar og að Icelandair tæki hlutverki sínu í þeirri þróun alvarlega. Flæði ferðamanna frá erlendum mörkuðum flugfélagsins til Akureyrar, Egilsstaða og Ísafjarðar hafi stóraukist eftir að innanlandsflugið var fært inn í Icelandair og erlendum ferðamönnum gert auðveldar að bóka flug þangað með auðveldari hætti.

Nú er unnið að því að stækka flugstöðina á Akureyri til að bæta aðstöðu fyrir utanlandsflug.ISAVIA

Ýmislegt þurfi að ganga upp 

Forstjórinn sagði að Icelandair ætli að styrkja tengingarnar milli millilanda- og innanlandsflugsins enn frekar og sú vinna sé þegar hafin. Icelandair sæi veruleg tækifæri í þessari þróun.

„Þetta gerist þó ekki á einni nóttu. Það þarf ýmislegt að ganga upp til þess að þessi framtíðarsýn okkar gangi eftir.“ Til að mynda þyrfti að bæta innviði fyrir innanlandsflug á Keflavíkurflugvelli með aðkomu Isavia og einfalda flæðið á flugvellinum. 

Ítrekað hefur verið reynt að viðhalda áætlunarflugi milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar og síðast flaug Air Iceland Connect, dótturfélag Icelandair, milli áfangastaðanna árið 2018. Air Iceland Connect rann inn í Icelandair í mars 2021.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×