Þegar grásleppusjómenn fara að leggja net sín, þá er vorið að koma.
„Auðvitað er þetta einn af vorboðunum. Og rauðmaginn náttúrlega ásamt lóunni eru tveir af helstu vorboðum Íslands,“ segir Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, í viðtali í fréttum Stöðvar 2.
En grásleppan er líka tengd litlu strandbyggðunum.
„Þetta getur skipt alveg gríðarlegu máli í mörgum af þessum litlu byggðarlögum,“ segir Arthur, sem býst við að yfir 160 bátar verði á grásleppuveiðum þetta vorið.

Í Reykjavíkurhöfn hittum við þrjá grásleppusjómenn sem róa saman á tveim bátum út frá Grindavík. Þeir hófu veiðarnar 31. mars á Garpi RE en voru að dytta að hinum bátnum, Jón Pétri RE, í Reykjavík.
„Veiðin hefur verið mjög góð, per dag. Svona í kringum fjögur tonn,“ segir Pétur Ólafsson, grásleppukarl í Grindavík, sem gerir út bátana.
Og það eru ekki bara gamlir karlar í grásleppunni.
„Nei, nei. Við erum ungir og graðir,“ heyrist svarað.
Og raunar hafa engir veitt meira en þeir.
„Við erum hæstir á landinu,“ segir Pétur.

„Þeir hafa verið að veiða alveg hreint með ólíkindum,“ segir Arthur um aflabrögð þremenninganna.
„Ég veit af mönnum fyrir norðan, við Langanesið, sem hafa bara verið að veiða prýðilega en eru bara búnir með tímann sinn. En svo hefur þetta verið dálítið brokkgengara annars staðar.“
Veiðin í fyrra var sú mesta í sögu grásleppuveiða með ótrúlegan meðalafla á bát.
„Rétt um 86 tunnur af hrognum. Það er bara eitthvað sem við erum ennþá að klóra okkur í hausnum yfir.“
Mikið framboð þýddi líka að verðið var með lægsta móti.
„En núna er það að skríða upp. Kannski vegna þess að það var tekin ákvörðun um það að hafa dagana mjög fáa. Þetta er stysta grásleppuvertíð sem hefur bara nokkurn tímann verið, ekki nema 25 veiðidagar leyfðir. Og fyrir vikið þá kannski eykst nú þrýstingur á kaupendur að hækka aðeins verðið,“ segir Arthur Bogason.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: