Oddný G. Harðardóttur, þingmaður Samfylkingar og fyrrum fjármálaráðherra, segir lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum hafa verið brotin við útboð á Íslandsbanka.
Einkum þar sem fram kemur að ráðherra taki ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað og undirritar samninga fyrir hönd ríkisins um sölu eignarhlutarins.
„Ef það er rétt sem að ráðherrann sjálfur segir að hann hafi ekkert vitað þá hefur hann brotið lög og það er stórkostlegt gáleysi,“ segir Oddný.
Aðspurð um hvort hann hefði þurft að undirrita hvert einasta tilboð segir hún svo vera.
„Samkvæmt lögum þá á hann að samþykkja með því að skrifa undir. Ef hann úthýsir því, þá ber hann samt sem áður ábyrgð,“ segir Oddný.
Oddný telur að ráðherrann þurfi að víkja. Tveir höfundar rannsóknarskýrslu Alþingis hafa áður bent á sömu lög og telur annar þeirra að þau hafi verið brotin og hinn að salan sé þvílíkt klúður að fjármálaráðherra eigi að víkja.
Telur ekki ástæðu til þess að hann segi af sér
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir af og frá að hann hafi brotið lög við söluna.
„Við komum á fót Bankasýslunni til að tryggja ákveðna hlutlægni við meðferð þessara mála,“ segir Bjarni.
Stjórnarandstaðan hefur meðal annara kallað eftir því að hann víki en sjálfur segir hann ekki tilefni til þess.
„Það er ekki nýtt fyrir mér að pólitískir andstæðingar óski þess að ég víki úr embætti og ég hef ekki komið auga á ástæðu til að gera það,“ segir Bjarni.
Stjórn Bankasýslu ríkisins skoðar nú lagalega stöðu sína gagnvart söluaðilum í útboðinu og mun að óbreyttu ekki greiða umsamda söluþóknun í tilvikum þar sem ágallar voru við sölu.