Innlent

Biðla til fólks að handleika ekki veika fugla án hlífðarbúnaðar

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Veikir fuglar gætu verið smitaðir af fuglaflensuveirunni.
Veikir fuglar gætu verið smitaðir af fuglaflensuveirunni. Vísir/Vilhelm

Matvælastofnun biðlar til fólks að fara varlega verði það vart við ósjálfbjarga fugla í umhverfi sínu þar sem þeir gætu mögulega verið smitaðir af fuglaflensuveirunni. Ekki skuli handleika slíka fugla, hvort sem þeir eru dauðir eða lifandi, án tilskilins hlífðarbúnaðar.

Alls hafa fjórir villtir fuglar greinst með fuglaflensu auk heimilishænsna á Skeiðum. Að því er kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni eru litlar líkur taldar á smiti yfir í mannfólk eða önnur dýr en þó sé mikilvægt að gæta að sóttvörnum og sýna varúð.

Þeir sem verða varir við lifandi veika fugla ættu að tilkynna það strax til viðkomandi sveitarfélags, sem sér um að koma þeim til aðstoðar eða sjá til þess að þeir séu aflífaðir.

Komi til aflífunar er mikilvægt að það sé gert með mannúðlegum hætti og helst af dýralækni. Þá þurfi að koma í veg fyrir frekari smitdreifingu og því skuli forðast skot, höfuðhögg eða blóðgun.

Finnist villtur fugl dauður er mikilvægt að hafa strax samband við Matvælastofnun og metur stofnunin þá hvort taka þurfi sýni úr fuglinum.

Margar tilkynningar hafa borist um dauða villta fugla víða á landinu á undanförnum dögum og fer stofnunin yfir þær ábendingar.


Tengdar fréttir

Fuglaflensa staðfest í hænunum á Skeiðum

Fuglaflensan hefur nú greinst í heimilishænum en sýni voru tekin úr hænum á bænum Reykjum á Skeiðum í síðustu viku. Tilkynnt var um það síðastliðinn föstudag að fuglaflensa hefði greinst í þremur villtum fuglum, þar á meðal í hrafni sem fannst dauður á Skeiðum. Þá var sterkur grunur um að hænurnar á Skeiðum væru smitaðar sem hefur nú verið staðfest.

Landsmenn hugi að sóttvörnum

Það gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér ef fuglaflensa berst inn á stærri alifuglabú að sögn yfirdýralæknis Matvælastofnunar. Landsmenn eru hvattir til að huga vel að sóttvörnum, ekki síst í kringum dauða fugla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×