Innlent

Telur ekki nauðsynlegt að fjármálaráðherra víki

Margrét Helga Erlingsdóttir og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Vísir/Vilhelm

Að mati Katrínar Jakobsdóttur fjármálaráðherra er ekki þörf á að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra víki vegna Íslandsbankamálsins.

Fyrir hádegi tilkynnti ríkisstjórnin að hún myndi leggja það til á Alþingi að leggja Bankasýslu ríkisins niður. Hún sagði að rannsókn Ríkisendurskoðunar og athugun fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands muni standa fyrir sínu, líkt og hún komst að orði.

„Það hefur engin áhrif á þær [rannsóknina og athugunina] hvort fjármálaráðherra situr áfram eða ekki en ég vil bara minna á það að samkvæmt lögunum þá starfar Bankasýslan í svokallaðri armslengd frá fjármálaráðherra sem þýðir að það er hún sem fer með framkvæmdina. Það eru hins vegar „prinsipp“ ákvarðanirnar sem eru teknar af hálfu framkvæmdavaldsins og ég held að undirbúningurinn að því hafi í raun og veru verið ágætur en þegar kemur að framkvæmdinni þá koma upp ýmis álitamál.“

Klippa: Forsætisráðherra vill fá allt upp á borðið

Til rannsóknar hvort fjárfestarnir hafi raunverulega verið „hæfir“

Katrín segir að á meðal þessara álitamála sé hvort söluaðilar sjálfir hafi tekið þátt í útboðinu.

„Ef það kemur á daginn að þeir hafa sjálfir tekið þátt í þessu útboði þá hlýtur það að stangast á við okkar hugmyndir um heilbrigða viðskiptahætti. Ég get nefnt það að það er til rannsóknar hvort allir þeir sem voru skilgreindir hæfir fjárfestar af söluaðilum séu í raun hæfir fjárfestar samkvæmt skilgreiningu laganna. Við verðum að bíða og sjá hvað kemur út úr þeirri rannsókn. En það er líka mjög alvarlegt ef það kemur í ljós að þessum ákvæðum hafi ekki verið fylgt.“

Katrín var innt eftir frekari svörum um ábyrgð fjármálaráðherra í málinu. 

Ertu alveg sannfærð um að það sé ekki skynsamlegt að hann stígi til hliðar að minnsta kosti tímabundið þar til komið er út úr þessum könnunum sem þú hefur nefnt?

„Mér finnst einmitt eðlilegt að við sjáum bara niðurstöður þeirra liggja fyrir áður en við tökum frekari ákvarðanir. Það kann að vera að það þurfi að rannsaka málin frekar þegar þessar niðurstöður liggja fyrir. Ég ætla ekki að útiloka það. Af minni hálfu og minnar hreyfingar er það algert lykilatriði að allt komi upp á borð í þessu máli. Við lítum á það sem mjög viðurhlutamikið mál þegar verið er að selja hluta úr ríkiseign. Við viljum byggja okkar ákvarðanir í þessum málum á réttum gögnum og upplýsingum. Þannig horfum við á það.“

Síðastliðnar vikur hefur gustað um ríkisstjórnina ekki síst út af ummælum sem innviðaráðherra lét falla í garð framkvæmdastjóra Bændasamtakanna og þeirra stöðu sem viðskiptaráðherra hefur tekið í Íslandsbankamálinu. Katrín var spurð hvort Íslandsbankamálið sé það mál sem hafi reynt hvað mest á ríkisstjórnarsamstarfið til þessa.

„Íslenskt samfélag gekk í gegnum mjög erfiða tíma eftir bankahrunið 2008 og það er eðlilegt að almenningur í þessi landi geri mjög skýra kröfu um að allt sem er gert í svona málum sé algerlega hafið yfir vafa og mér finnst að við stjórnmálamenn eigum að taka það mjög alvarlega þegar upp koma álitamál og gagnrýni og það er okkar skylda að fara algjörlega ofan í kjölinn á öllum þeim málum þannig að við séum með allt upp á borðum því það er eðlilegt að fólk sé ennþá brennt eftir það sem gerðist hér fyrir þrettán, fjórtán árum.“

Hún kveðst, aðspurð, hafa skilning á þeirri kröfu almennings sem komið var á framfæri á fjölmennum mótmælafundi um liðna helgi en þrátt fyrir það sé mikilvægt að ekki séu teknar ákvarðanir fyrr búið sé að velta við hverjum steini.

„Ég hef mikinn skilning á því að fólk vill að svona hlutir séu í lagi, ég vil að svona hlutir séu í lagi og við í ríkisstjórninni erum sammála um það að svona ferli á að vera hafið yfir vafa og þegar upp koma þessar gagnrýnisraddir þá er bara eðlilegt að hlusta eftir þeim og taka þetta til skoðunar en líka að við vöndum okkur, að við hlaupum ekki til og drögum ályktanir umfram þau gögn sem við höfum. Við þurfum bara að fá allt upp á borðið.“

Segir ráðherra hafa komist að sameiginlegri niðurstöðu

Það vakti athygli fyrir páska að Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra sagðist hafa gagnrýnt þá leið sem fjármálaráðherra vildi fara í útboðinu og varað við henni og að ríkisstjórnin hefði þannig ekki tekið mið af hennar mati við ákvarðanatöku í aðdraganda Íslandsbankasölunnar.

„Þessi mál voru rædd annars vegar í ráðherranefnd og hins vegar í ríkisstjórn og þar lýstu ráðherrar sínum skoðunum. Ég lýsti sjálf minni skoðun og var meðal annars með sjónarmið sem vörðuðu það að það væri mjög mikilvægt í þessari aðferð að leggja sérstaka áherslu á gagnsæi og upplýsingagjöf til almennings. Aðrir ráðherra lýstu sínum skoðunum. Niðurstaðan var hins vegar sameiginleg og það var enginn sem bókaði neina andstöðu við hana.“

Katrín sagði að það væri hefðbundin venja við ákvarðanatöku á vettvangi ríkisstjórnar að bóka athugasemdir.

Nú hefur komið í ljós að ríkisbanki í eigu landsmanna lánaði nokkrum úr fagfjárfestahópnum fyrir hlutabréfakaupunum í Íslandsbanka. Katrín sagði að það væri hlutverk hennar sem stjórnmálamanns að tryggja að þar til bærir aðilar velti við hverjum steini í málinu, og þar á meðal þessu atriði. Katrín var spurð hvort hún hefði samt ekki skoðun á þessum anga málsins.

„Ég held að í þessum efnum þá kannski fyrst að fá fram hvað stenst samkvæmt lögum og hvað stenst reglur um heilbrigða viðskiptahætti og hvað stenst innri reglur fjármálafyrirtækjanna því þar eru líka regluverðir sem hafa ákveðnu hlutverki að sinna en þegar heildarmyndin er komin þá auðvitað vakna líka siðferðislegar spurningar og það er kannski það sem maður skynjar hjá almenningi í landinu. Það er þessi tilfinning að það skipti máli að við séum ekki bara að horfa í lögin heldur líka að horfa á þetta siðlega.“

Hún kveðst einnig hafa verið hugsi yfir því að ekki hafi verið lagður til lágmarks binditími er varðar kaup í útboðinu. Þá hafi heldur ekki verið sett lágmarksfjárhæð fyrir kaupum. Nú verði að bíða niðurstöðu þeirrar rannsóknar sem komin er gang.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×