Innlent

Ísland myndi styðja NATO-aðild Finna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er utanríkisráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er utanríkisráðherra. Vísir/Vilhelm

Íslensk stjórnvöld munu styðja aðildarumsókn Finna að Atlantshafsbandalaginu, komi til þess að Finnar sæki um aðild.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag þar sem haft er eftir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra að Ísland myndi styðja slíka umsókn.

Miklar umræður hafa farið fram í Finnlandi á síðustu vikum um aðildarumsókn að bandalaginu, eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu.

Finnar hafa hingað til staðið fyrir utan bandalagið, ekki síst vegna nálægðarinnar við Rússland en ríkin tvö deila um 1,340 kílómetra löngum landamærum.

Árás Rússa á Úkraínu hefur hins ýtt Finnum út í að íhuga það alvarlega að sækja um aðild að bandalaginu.

Sanna Marin, forsætisráðherra Finna, hefur sagt að Finnar þurfi að taka ákvörðum um aðildarumsókn á næstu vikum. Reikna má með að möguleg umsókn verði rædd á finnska þinginu á næstu dögum.


Tengdar fréttir

Ís­land búi sig undir hörð við­brögð af hálfu Rússa

Stjórnmálafræðiprófessor telur að Ísland þurfi að vera viðbúið því að verða fyrir barðinu á refsiaðgerðum Rússa, ef Finnland og Svíþjóð sækjast eftir aðild að NATO. Velta megi fyrir sér hvort Ísland sé „veikasti hlekkurinn í varnarkeðju NATO.“

Finnar og Svíar færast nær NATO-aðild

Forsætisráðherrar Finnlands og Svíþjóðar segja báðir að öryggislandslag Evrópu hafi tekið grundvallarbreytingum með innrás Rússa í Úkraínu. Það geti leitt til þessa að bæði ríki sæki um aðild að NATO, Atlantshafsbandalaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×