Frá því að innrásin hófst hafa 772 flóttamenn frá Úkraínu komið til Íslands. Samtökin Flottafólk reka griðastað flóttamanna að Guðrúnartúni og athvarf barna og foreldra að Hátúni. Sveinn Rúnar Sigurðsson, læknir sem er í forsvari fyrir hópinn, segir þau hafa tekið við töluverðum fjölda fólks á miðvikudag, síðasta daginn fyrir páska.
„Við áttum þar góða stund yfir góðum mat og við afhentum öllum páskaegg, eða páskaegg og súkkulaðiplötur, með aðstoð góðra fyrirtækja,“ segir Sveinn.

„Við erum svo að setja núna upp fjarfundarviðburð þar sem að Úkraínumenn og flóttamenn á Íslandi geta sótt athöfn á netinu beint frá Úkraínu í samvinnu við biskup þar,“ segir hann enn fremur.
Páskarnir eru með örlítið öðruvísi sniði hjá Úkraínumönnum en þeirra dymbilvika hófst á miðnætti og er páskadagur eftir viku.
„Þau halda páskana mjög hátíðlega og þetta skiptir þau máli,“ segir Sveinn.
Mikilvægt að fólk einangrist ekki
Sveinn segir mikilvægt að Úkraínumenn haldi í sínar hefðir og einangri sig ekki, sérstaklega á þessum tíma.
„Maður trúir því staðfastlega, og bara á grunni míns starfs sem læknir, að þegar fólk á um sárt að binda, eins og fólkið sem kemur hingað, að það eyði ekki tíma sínum einangrað inni á hótelherbergi heldur að það gangi að og nýti sér nokkuð þétta dagskrá, bæði varðandi samveru og matarhittinga en ekki síst viðburði,“ segir Sveinn.
Hann vísar í því samhengi til þess að unnið sé að verkefni í samstarfi við ferðaþjónustuna og fleiri aðila, svokallaðan flóttamannakvóta á ýmsa viðburði. Þannig fái flóttafólk aðgengi að ýmsum viðburðum líkt og Íslendingar.
„Heilt yfir þá er maður afskaplega ánægður með stöðu mála bæði hjá ríki og sveitarfélögum og ég held að við getum öll einhvern veginn horft yfir öxl og verið stolt af þessu viðbragði,“ segir hann enn fremur.
Gert er ráð fyrir að fleiri flóttamenn komi til landsins eftir páska og miða aðgerðir að því að gera þá hluta af samfélaginu.
„Til lengri eða skemmri tíma, ég er reyndar viss um það að mikið af þessu fólki vill snúa aftur heim um leið og stríðið lengur en við vitum ekki hversu lengi þetta stríð mun vara og óvissan er náttúrulega mjög erfið,“ segir Sveinn.