Neytendur

Um helmingur lands­manna vill létt­vín og bjór í búðir

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Um helmingur landsmanna styður við sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum.
Um helmingur landsmanna styður við sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum. Getty

Um helmingur landsmanna vill að heimilt sé að selja léttvín og bjór í matvöruverslunum á Íslandi. Aðeins um 22 prósent vilja að sterkt áfengi verði til sölu í matvöruverslunum. 

Stuðningur við sölu áfengis í matvöruverslunum hefur aukist jafnt og þétt frá árinu 2017 en þá hafði stuðningur við söluna fallið frá árinu á undan. Það á bæði við um sölu léttvíns og bjórs og sterks áfengis. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu fyrir fréttastofu. Könnunin fór fram dagana 11. til 16. febrúar og svöruðu 966 könnuninni. 

Árið 2016 studdu 42,6 prósent við sölu léttvíns og bjórs í verslunum en sá stuðningur féll niður um tíu prósent árið 2017. Síðan hefur stuðningur við söluna aukist ár frá ári. Árið 2018 var 35,8 prósent stuðningur við söluna, 43,4 prósent stuðningur árið 2021 og í ár 47,6 prósenta stuðningur. 

Hér má sjá breyting á stuðningi við vínsölu í búðum milli ára.MAskína

Stuðningur við sölu sterks áfengis er talsvert minni. Árið 2016 var hann um 19 prósent, féll niður í 15,4 árið 2017 og er nú 22,4 prósent. 

Stuðningur við söluna er nokkuð aldursdreifður og ljóst að fólk á fertugsaldri, 30 til 39 ára, er hlynntast sölu víns í matvöruverslunum. 52,8 prósent 18 til 29 ára styðja við sölu léttvíns og bjórs, 65,8 prósent á aldrinum 30-39 ára, 48,3 prósent á aldrinum 40-49 ára og 46,2 prósent á aldrinum 50-59 ára. Stuðningurinn er minnstur meðal 60 ára og eldri, en þar styðja um 26,8 prósent við sölu víns í matvöruverslunum. 

Hér má sjá mun á stuðningi við vínsölu í búðum milli aldurshópa.Maskína

Sama á við um stuðning við sölu sterkvíns, þar styðja um 25 prósent 18-29 ára við söluna, 39,8 á aldrinum 30-39 ára, 19,9 prósent á aldrinum 40-49 ára og 16,6 prósent á aldrinum 50-59 ára. Minnstur er stuðningur meðal 60 ára og eldri, eða um 10,6 prósent. 


Tengdar fréttir

Vín­búðir opnar á sunnu­dögum?

Um áralangt skeið hafa frjálshyggjan og íhaldssemin tekist á um aðgengi neytenda að áfengi. Málefni sem við fyrstu sýn er ekki það stórt, en hefur orðið einn holdgervinga reipitogsins milli tveggja póla.

Sala áfengis í Vínbúðinni jókst um átján prósent

Aldrei hefur meira verið selt af áfengi í Vínbúðinni en í fyrra. Salan jókst um átján prósent á milli ára en aukin sala skýrist af minni sölu í Fríhöfninni og lokun bara og veitingastaða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×