Sport

Frjálsíþróttafólk víkur vegna tölvuleikjamóts: „Auðvitað alveg fáránlegt“

Sindri Sverrisson skrifar
Guðni Valur Guðnason hefur keppt fyrir Íslands hönd á tvennum Ólympíuleikum.
Guðni Valur Guðnason hefur keppt fyrir Íslands hönd á tvennum Ólympíuleikum. Getty/Patrick Smith

„Þetta er auðvitað alveg fáránlegt að æfingaaðstaðan sé enn og aftur að loka!“ skrifar ólympíufarinn Guðni Valur Guðnason nú þegar frjálsíþróttafólk missir aðstöðu sína í Laugardalshöll á ný vegna tölvuleikjamóts.

Vegna tölvuleikjamótsins Valorant Masters geta Guðni og annað frjálsíþróttafólk í Reykjavík, börn og fullorðnir, ekki æft í einu frjálsíþróttahöll borgarinnar eins og það hefði kosið á næstunni.

Óskar Hlynsson, yfirþjálfari frjálsíþróttadeildar Fjölnis, segir að frá 25. apríl til 15. maí sé „frjálsíþróttahöllin“ aðeins opin fyrir æfingar í níu daga, og að lyftingasal hafi verið lokað þrátt fyrir loforð um að hann yrði opinn.

Bitnar á afreksíþróttafólkinu og ungmennastarfið „í hakki“

Guðni Valur, sem er Íslandsmethafi í kringlukasti, harmar þessa stöðu sem kom einnig upp um svipað leyti í fyrra:

„Þetta bitnar auðvitað á afreksíþróttafólkinu okkar. Eins með ungmennastarf deildanna sem eru búnar að vera í hakki eftir covid og endalausar lokanir vegna atburða,“ skrifar Guðni Valur á Facebook og bætir við:

„Spurning að Reykjavíkurborg og Íþróttabandalag Reykjavíkur hætti að borga himinháa ársleigu í hálflokaða æfingaraðstöðu og byggi sameiginlega æfingaraðatöðu fyrir íþróttafélög Reykjavíkurborgar sem fær að haldast opin. Sem er gífurlega mikilvægt fyrir bæði meistaraflokkinn sem og að halda góðu yngriflokkastarfi sem er uppistaða íþróttafélaganna á Íslandi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×