„Til Íslands er flutt olía fyrir um 100 milljarða á ári og hún er brennd til að skapa hér verðmæti. Tækifærið felst í því að framleiða eldsneyti hér innanlands og verða um leið sjálfstæð í orkumálum,“ sagði Sigurður, sem er stjórnarformaður Grænvangs, í ræðu sinni, og bætti við:
„Með því að vera í fararbroddi í þriðju orkuskiptunum, rétt eins og við vorum í fararbroddi við nýtingu jarðvarma, verður til þekking hér sem verður eftirsótt víða um heim með tilheyrandi verðmætasköpun hér á landi. Þannig hjálpum við öðrum að ná sínum metnaðarfullu markmiðum í loftslagsmálum."
Að sögn Sigurðar væri þetta spennandi og raunhæf framtíðarsýn.
„Grunnforsenda þess að hún verði að veruleika er aukin orkuöflun innanlands. Í skýrslu sem starfshópur vann fyrir ráðherra orkumála og kynnt var fyrir fjórum vikum síðan kom fram að til þess að uppfylla þarfir samfélagsins um orku, ná fullum orkuskiptum og viðhalda útflutningi og verðmætasköpun til framtíðar þarf að auka innlenda orkuöflun um ríflega 120 prósent á næstu 18 árum.
Stóra málið hér er að við þurfum að hefjast handa og taka nauðsynleg skref í átt að kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum. Það tekur mörg ár að afla nýrrar orku og áður en við vitum af verður árið 2040 komið – og farið," sagði Sigurður, en stjórnvöld hafa sett sér það markmið að Ísland verði óháð jarðefniseldsneyti fyrir þann tíma.
Til Íslands er flutt olía fyrir um 100 milljarða á ári og hún er brennd til að skapa hér verðmæti. Tækifærið felst í því að framleiða eldsneyti hér innanlands og verða um leið sjálfstæð í orkumálum.
Benti Sigurður á að fyrirtækin finni bestu lausnirnar til að uppfylla markmiðin og ráðast í aðgerðir til að draga úr losun í sinni starfsemi. „Stjórnvöld þurfa að móta réttu umgjörðina til að flýta þessari þróun, setja hvata til nýsköpunar og fjárfestinga í nýrri tækni auk þess að stuðla að orkuskiptum,“ sagði hann í ræðu sinni, auk þess að nefna þær lausnir íslenskra fyrirtæki sem hafa orðið til og gætu í senn hjálpað öðrum þjóðum að ná sínum markmiðum og eins skapað verðmæti hér á landi.
„Aðferð Carbfix er gott dæmi um þetta en einnig má nefna byltingarkenndar aðferðir við framleiðslu á kolefnislausu áli og ammóníaki þar sem yfir hundrað ára gömlum efnaferlum er umbylt í þágu loftslagsmála. Þannig hefur græn iðnbylting líka snúist um að endurhugsa þá iðnaðarferla sem urðu til í öðrum iðnbyltingum og hanna nýja sem hafa minni áhrif á umhverfið. Þannig hafa íslensk fyrirtæki þegar náð árangri við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda,“ sagði Sigurður.