Körfubolti

„Hann var ósáttur og við vildum ekki hafa einhverja neikvæðni í kringum liðið“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Isaiah Manderson stóð ekki undir væntingum hjá KR.
Isaiah Manderson stóð ekki undir væntingum hjá KR. vísir/bára

Helgi Már Magnússon, þjálfari KR, segir að það fyrir verið öllum aðilum fyrir bestu að Bandaríkjamaðurinn Isaiah Manderson yfirgæfi félagið.

KR greindi frá því í gær að félagið hefði komist að samkomulagi við Manderson um að leysa hann undan samningi. KR-ingar hefja leik í úrslitakeppni Subway-deildarinnar annað kvöld þegar þeir sækja deildarmeistara Njarðvíkinga heim.

Manderson lék aðeins fimm leiki með KR og bara rétt tæpar nítján mínútur að meðaltali í þeim. Hann skoraði 12,0 stig að meðaltali í leik og tók 5,2 fráköst. KR-ingar unnu aðeins einn af fimm leikjum sem Manderson spilaði.

Helgi segir að Manderson hafi viljað spila meira en hann hafi átt erfitt með að finna aukinn spiltíma fyrir hann.

„Hann var ósáttur með sitt hlutverk og við áttum í erfiðleikum með að finna fleiri mínútur fyrir hann. Hann var ósáttur og við vildum ekki hafa einhverja neikvæðni í kringum liðið. Þannig við tókum þessa ákvörðun í staðinn fyrir að hafa hann ósáttan á bekknum og inni í klefa,“ sagði Helgi við Vísi í dag.

„Þetta var bara samkomulag okkar á milli. Hann langaði augljóslega að spila meira og það eðlilega en við áttum erfitt með að finna þær mínútur fyrir hann. Þetta var lausnin.“

Þrátt fyrir að vera án bandarísks leikmanns fara KR-ingar brattir inn í úrslitakeppnina.

„Jájá, við höfum spilað megnið af okkar leikjum eftir áramót Kanalausir. Við förum inn í úrslitakeppnina af fullum krafti,“ sagði Helgi.

KR endaði í 8. sæti Subway-deildarinnar með tuttugu stig. KR-ingar töpuðu fyrir Valsmönnum, 54-72, í lokaumferðinni á fimmtudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×