Sport

Katrín Tanja í kosningabaráttu

Sindri Sverrisson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir er í 16. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Katrín Tanja Davíðsdóttir er í 16. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Getty/Meg Oliphant

Crossfit-stjarnan Katrín Tanja Davíðsdóttir hefur ákveðið að leggja sitt lóð á vogarskálina fyrir Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórnarkosningunum í vor.

Katrín Tanja skipar 16. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins sem kynntur var í dag. Hún er því nokkuð ofarlega, næst á eftir Þórði Gunnarssyni og Róberti Aroni Magnússyni sem báðir tóku þátt í prófkjörsbaráttunni hjá flokknum, þó að ólíklegt verði að teljast að hún endi í hópi þeirra 23 borgarfulltrúa sem kjörnir verða í vor.

Katrín Tanja hlaut titilinn hraustasta kona heims árin 2015 og 2016 þegar hún vann heimsleikana í Crossfit. Hún var hins vegar vonsvikin eftir að hafa hafnað í 10. sæti á leikunum í fyrra.

Samhliða því að sinna íþrótt sinni af ástríðu hefur Katrín Tanja undanfarin misseri látið til sín taka á fleiri sviðum, meðal annars með útgáfu heyrnatólanna Dóttir og samnefndrar bókar sem afi hennar, fyrrverandi sendiherrann Helgi Ágústsson, þýddi.

Katrín Tanja ætti að geta dreift boðskap sínum og Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi kosningar ansi víða kjósi hún svo en hún er einn allra vinsælasti Íslendingurinn á samfélagsmiðlum, með 1,8 milljón fylgjenda á Instagram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×