Iryna Vereshchuk aðstoðarforsætisráðherra Úkraínu segir skilaboð hafa borist frá Rússum í gegnum alþjóða Rauða krossinn um að þeir væru reiðubúnir til að opna leiðir fyrir hópvagna til að flytja óbreytta borgara frá hafnarborginni Mariupol. Þar bjuggu um fjögur hundruð þúsund manns fyrir innrás Rússa en í dag er talið að þar séu enn um 160 þúsund manns. Hópferðarbílarnir verða að fara í gegnum varðstöðvar borgarinnar sem Rússar hafa setið um og skotið látlaust á í tæpan mánuð.
Volodymyr Zelenskyy forseti Úkraínu segir rangt að rússneskar hersveitir hafi dregið sig til baka frá útjaðri höfuðborgarinnar Kænugarðs og Chernihiv vegna þess að Rússar hefðu náð fram markmiðum sínum. Þvert á móti hafi þær verið hraktar til baka af úkraínska hernum. Yfirlýsingar Rússa væru því innatóm orð.

„Því á sama tíma sjáum við að Rússar eru að undirbúa hertar árásir í Donbas og við erum að undirbúa okkur undir þær. Við trúum engu málskrúði. Sú alvarlega staða sem er á vígvellinum er það sem skiptir öllu máli. Við gefumst ekki upp fyrir neinum og munum verja hvern metra af landi okkar og hvern eeinasta íbúa landsins,“ sagði Zelenskyy.

Kate Bedingfield samskiptastjóri Hvíta hússins segir upplýsingar benda til að spenna hafi myndast milli Rússlandsforseta og yfirmanna hersins vegna þess að þeir hafi ekki gefið honum réttar upplýsingar um stöðu mála.
„Við teljum að Putin hafi ekki verið upplýstur um lélega framistöðu rússneska hersins og lamandi áhrif refsiaðgerða Vesturlanda á efnahag Rússlands vegna þess að háttsettir ráðgjafar hans séu of hræddir til að segja honum sannleikann,“ segir Bedingfield.

Sergey Lavrov utanríkisráðherra Rússlands sagði í heimsókn til Kína í gær að það væru jákvæð teikn að Úkraínumenn hefðu fallist á að vera án kjarnorkuvopna og utan hernaðarbandalaga en það dygði ekki eitt og sér til.

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands sagði fyrir þingnefnd í gær að Úkraínumenn sjálfir að ákveða framtíð sína og vopnahlé dygði ekki til að sjö helstu iðríki heims aflétti refsiaðgerðum sínum gegn Rússlandi.
„Að mínu mati eigum við að halda áfram að herða refsiaðgerðirnar þar til síðasti rússneski hermaðurinn er farinn frá Úkraínu,“ sagði Boris Johnson.