Gríðarleg umfram eftirspurn var í útboði Bankasýslunnar í Íslandsbanka í síðustu viku en um 430 svo kallaðir hæfir fjárfestar tóku þátt. Svo mikil var eftirspurnin að það þurfti að skerða hlut þeirra verulega. Þannig fengu velflestir lífeyrissjóðir skerðingar upp á um 60%. Fréttastofa óskaði í dag eftir upplýsingum um hvað lífeyrissjóðirnir fengu úthlutað. Í svörum þeirra flestra kom fram að þeir fengu um 40% af þeirri upphæð sem þeir óskuðu eftir. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins fékk lang stærsta hlutinn eða um 3,9 milljarða. Hér að neðan má sjá hvað lífeyrissjóðir keyptu fyrir háar fjárhæðir í útboðinu í síðustu viku.

Bankasýsla ríkisins hefur enn ekki skilað uppgjöri vegna útboðsins þannig að það þarf að nálgast núverandi hluthafalista í bankanum í höfuðstöðvum Íslandsbanka en samkvæmt lögum mega aðeins hluthafar sjá listann.
Fjárfestatengill situr þannig með viðkomandi og sýnir hluthafalistann en ekki má taka myndir af listanum sjálfum. Samkvæmt upplýsingum sem fréttastofa páraði niður á fundinum fara nú hundrað fjárfestar með tæplega 90 prósenta eignahlut í Íslandsbanka. Hinir tæplega sextán þúsund eigendurnir eiga svo um tíu prósent.
Tólf lífeyrissjóðir fara nú með tæplega fjórðungshlut í bankanum. En þeir keyptu allir í síðasta útboði og sést hlutur þeirra í bankanum á myndinni hér að neðan.

Sex bankar og verðbréfasjóðir fara með ríflega sex prósenta hlut í Íslandsbanka en taka skal fram að bankarnir voru langmest að fjárfesta í útboðinu fyrir hönd viðskiptavina sinna samkvæmt upplýsingum frá viðskiptabönkunum.

Tíu af tólf stærstu erlendum fjárfestum í bankanum virðast vera að losa sig við hluti, merkt með rauðu á myndinni hér að neðan eða standa hjá í útboðinu, merkt með bláu. Þó skal tekið fram að uppgjör Bankasýslu ríkisins á útboðinu er ekki lokið og því gætu þær upplýsingar sem lágu fyrir í bankanum í dag breyst. Erlendu fjárfestarnir fara samtals með tæplega 8% hlut en hlutur erlendra fjárfesta var um 11% eftir síðasta útboð. Capital Group er lang stærsti erlendi hluthafinn og fer með 5,06% hlut.

Fjórir einstaklingar eru meðal hundrað stærstu hluthafa Íslandsbanka og fara samanlagt með ríflega eitt prósent hlutafjár í Íslandsbanka.
