Körfubolti

Siakam sendi þunnskipað lið Boston niður um þrjú sæti

Sindri Sverrisson skrifar
Pascal Siakam keyrir framhjá Aaron Nesmith í sigri Toronto Raptors í nótt.
Pascal Siakam keyrir framhjá Aaron Nesmith í sigri Toronto Raptors í nótt. AP/Frank Gunn

Pascal Siakam skoraði 40 stig þegar Toronto Raptors unnu mikilvægan sigur og sendu Boston Celtics niður úr efsta sæti austurdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta í gær. Leikurinn var annar tveggja leikja sem fóru í framlengingu.

Miami Heat er núna eitt á toppi austurdeildarinnar, eftir öruggan 123-100 sigur á Sacramento Kings í gær, en Boston fór alveg niður í 4. sæti.

Toronto náði hins vegar að lyfta sér upp úr umspilssæti og í 6. sæti austurdeildarinnar.

Siakam skoraði ekki bara 40 stig heldur tók 13 fráköst í 115-112 sigri Toronto í gær. Hann skoraði til að mynda mikilvæga körfu seint í framlengingunni.

Lið Boston var ansi þunnskipað og lék án Jaylen Brown, Jason Tatum, Al Horford og Robert Williams III, í aðeins fimmta tapleik sínum í síðustu 29 leikjum.

Brown og Tatum munu báðir hafa verið aumir í hnjánum en ættu að vera með á morgun þegar Boston fær Miami í heimsókn í sannkölluðum stórleik.

Jokic með þrefalda tvennu

Einnig var framlengt í Portland þar sem gestirnir frá Oklahoma City Thunder unnu 134-131 sigur. Isaiah Roby skoraði 30 stig fyrir Oklahoma og Aaron Wiggins 28 en liðið er engu að síður næstneðst í vesturdeildinni og vonir Portland um að komast upp í umspil eru einnig afar litlar.

Nikola Jokic og félagar í Denver Nuggets eru hins vegar í 6. sæti vesturdeildarinnar og nálægt næstu liðum eftir 113-109 sigur gegn Charlotte Hornets. Jókerinn stóð fyrir sínu og skoraði 26 stig, tók 19 fráköst og gaf 11 stoðsendingar, og náði þar með sinni nítjándu þrennu í vetur.

Úrslitin í gær:

  • Charlotte 109-113 Denver
  • Cleveland 107-101 Orlando
  • Indiana 123-132 Atlanta
  • Miami 123-100 Sacramento
  • New York 109-104 Chicago
  • Toronto 115-112 (e. framl.) Boston
  • Houston 120-123 San Antonio
  • Memphis 123-95 Golden State
  • Portland 131-134 (e. framl.) Oklahoma

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×