Helgi Már Magnússon, þjálfari KR, var ekki sáttur við margt í leik liðsins í dag en mjög feginn stigunum enda liðið í harðri baráttu um að komast í úrslitakeppni.
„Ég er bara þakklátur að fara héðan með sigur. Ég ætla ekki að taka neitt af Þórsurunum en frammistaðan okkar var ekki til fyrirmyndar.”
Kom Þórsliðið Helga á óvart eða var KR liðið bara slakt í kvöld?
„Við höfum alveg fylgst með þessu Þórsliði ágætlega og vitum alveg hvað þeir geta en við erum með 24 tapaða bolta, allt annað ef þú skoðar tölfræðiblaðið var bara okkur í hag; vorum að skjóta vel, vorum að frákasta vel en léleg vörn stóran hluta leiks og ótrúlegir tapaðir boltar.”
Eins og Helgi kom inn á var KR með 24 tapaða bolta í dag sem er gríðarlega mikið. Var það bara óagaður sóknarleikur sem orkaði þessum fjölda?
„Mér fannst stór hluti þeirra ekkert vera vörnin sem var að þrýsta okkur í einhverja tapaða bolta en það kom alveg inn á milli vissulega en stór hluti þeirra var bara kjánaleg ákvörðunartaka en við bara unnum og flott en við verðum að gera miklu betur í næsta leik.
KR fékk nýlega til liðs við sig Finnskan leikmann, Carl Lindbom, sem var í hóp í dag en kom ekkert við sögu. Helgi segir hann vera lítillega meiddan.
„Hann fékk högg á hendina og var frá í þessum leik en hann verður með í næsta.”
Þegar þetta er skrifað er Valur að sigra Breiðablik og ef svo fer dugir KR að sigra Val í lokaleik sínum burtséð frá því hvernig leikur Blika fer til þess að komast í úrslitakeppni. Helgi segir að auðvitað sé best fyrir liðið að hafa örlögin í þeirra eigin höndum.
„Það er heill hálfleikur eftir þannig ég ætla ekkert að vera fagna því eitthvað en jú auðvitað viljum við hafa þetta í okkar höndum og vonandi verður þetta þannig.”
KR mætir Val í lokaumferðinni þar sem í ljós kemur hvort að liðið verði með í úrslitakeppninni. Leikir þessara liða hafa verið rosalegir og ber þar hæst eftirminnileg sería liðanna í 8-liða úrslitum í fyrra.
„Við þurfum að gefa allt í þetta en frammistaðan þarf að vera töluvert betri heldur en hérna í kvöld.”
Isaiah Manderson spilaði sinn þriðja leik fyrir KR í kvöld og endaði með 19 stig og 10 fráköst. Helgi vonanst til þess að hann komist enn betur inn í leik KR-liðsins fyrir úrslitakeppnina ef liðið fer þangað.
„Hann getur komið sér miklu betur inn í þetta og við að fara spila með hann líka en það er fullt af hlutum sem við þurfum að finna út úr, þetta er náttúrulega bara þriðji leikurinn hans og menn eru að venjast honum en það var ekkert við hann að sakast, hann spilaði bara ágætlega hérna í kvöld.”