Fótbolti

„Kom aldrei til tals hjá henni að hún væri hætt“

Sindri Sverrisson skrifar
Elín Metta Jensen á stóran þátt í því að Ísland spilar á EM í Englandi í sumar en hún skoraði sex mörk í undankeppninni, þar á meðal dýrmætt mark í 1-1j jafntefli gegn Svíþjóð og tvö mörk í 4-1 sigri gegn Ungverjum.
Elín Metta Jensen á stóran þátt í því að Ísland spilar á EM í Englandi í sumar en hún skoraði sex mörk í undankeppninni, þar á meðal dýrmætt mark í 1-1j jafntefli gegn Svíþjóð og tvö mörk í 4-1 sigri gegn Ungverjum. EPA-EFE/Tibor Illyes

Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari gat valið Elínu Mettu Jensen í landsliðshóp sinn í dag, í fyrsta sinn síðan í júní á síðasta ári. Hann var spurður út í sögusagnir þess efnis að Elín Metta hefði ætlað að hætta í fótbolta.

„Ég ræddi við hana um þetta en hún sagði mér aldrei að hún væri hætt,“ sagði Þorsteinn á blaðamannafundi í dag.

Elín Metta missti af landsleikjum síðasta haust vegna meiðsla en hefur jafnað sig af þeim og spilað með Val í vetur.

Í byrjun þessa mánaðar var því hins vegar haldið fram í hlaðvarpsþættinum Dr. Football að þessi mikla markamaskína hefði ákveðið að leggja skóna á hilluna, 27 ára gömul. Elín Metta svaraði því til við Vísi að það væri einfaldlega rangt en hefur ekki tjáð sig frekar um málið.

Þorsteinn sá engu að síður ástæðu til að heyra hljóðið í Elínu Mettu en eins og fyrr segir fékk hann þá staðfestingu á því að Valskonan yrði áfram til taks fyrir landsliðið sem er á leið í afar mikilvæga leiki í undankeppni HM í apríl og svo í lokakeppni EM í Englandi í júlí.

„Reyndar voru þessar fréttir að koma þegar við vorum úti og maður var ekki mikið að stressa sig á þessu þá,“ sagði Þorsteinn sem var með íslenska landsliðinu á æfingamóti í Bandaríkjunum undir lok febrúar.

„Það kom alla vega aldrei til tals hjá henni að hún væri hætt í fótbolta,“ sagði Þorsteinn en vildi ekki fara nánar út í samskipti sín við Elínu Mettu.

Klippa: Þorsteinn um orðróm um Elínu Mettu

Tengdar fréttir

Sara snýr aftur í landsliðið

Sara Björk Gunnarsdóttir er í íslenska landsliðshópnum sem mætir Hvíta-Rússlandi og Tékklandi í undankeppni HM í næsta mánuði. Sara hefur ekki leikið með landsliðinu í rúmt ár vegna barneigna.

Kynnti hópinn sem mætir Tékkum í algjörum lykilleik

Á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í dag tilkynnti Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari kvenna í fótbolta, hvaða leikmenn færu í leikina mikilvægu við Hvíta-Rússland og Tékklandi í undankeppni heimsmeistaramótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×