„PCC náði að skila jákvæðri rekstrarafkomu á fjórða ársfjórðungi. Heilt yfir var verksmiðjan réttum megin við núllið á árinu 2021, að minnsta kosti hvað varðar EBITDA, og rekstrarniðurstöðurnar voru því mun betri en árið á undan og umfram væntingar okkar,“ segir í skýrslunni.
Miklar tafir og erfiðar aðstæður á hrávörumörkuðum einkenndu rekstur kísilversins eftir gangsetningu á vormánuðum ársins 2018. Auk þess kom kórónufaraldurinn illa niður á kísilverinu á árinu 2020 – framleiðslan var stöðvuð og 80 manns sagt upp – og nam tap ársins alls 53 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði um 6,9 milljarða króna.
Framleiðsla kísilmálms í verksmiðjunni var mikil og jafnframt stöðug á fjórða ársfjórðungi.
Kísilverið var endurræst í apríl í fyrra og á seinni hluta ársins naut það góðs af hækkandi verði kísilmálms.
„Framleiðsla kísilmálms í verksmiðjunni var mikil og jafnframt stöðug á fjórða ársfjórðungi. Auk þess, sökum minni útflutnings frá Kína, hélt verð á hvert tonn kísilmálms áfram að hækka í upphafi fjórðungsins og var það um tíma meira en fimm sinnum hærra en á fjórða ársfjórðungi 2020,“ segir jafnframt í skýrslunni.
„Verðkúrfan flattist út á síðustu vikum ársins 2021 en þrátt fyrir það var verðið áfram hátt um og eftir áramót.“
Kísilverið, sem veltir nú um 2 milljörðum króna á mánuði, hefur endurráðið alla starfsmenn sem sagt var upp í kórónufaraldrinum og er starfsmannafjöldinn nú um 150 manns. Rúnar Sigurpálsson, forstjóri kísilversins, sagði í samtali við Fréttablaðið í desember að ef reksturinn yrði áfram í sama horfi gæti farið svo að milljarða niðurfærslur á virði kísilversins í bókum hluthafa þess gengju til baka.
Þýska félagið á 86,5 prósent hlut í kísilverinu en Bakkastakkur, sem er fjárfestingafélag í eigu Íslandsbanka og íslenskra lífeyrissjóða, fer með 13,5 prósenta hlut. Fimm stærstu lífeyrissjóðirnir í hluthafahópi Bakkastakks færðu hlut sinn í félaginu niður um 75 til 100 prósent á árinu 2020.
Auk þess að leggja kísilverinu PCC til hlutafé fyrir um 2,5 milljarða króna á sínum tíma, þá fjárfestu íslensku lífeyrissjóðirnir og Íslandsbanki sömuleiðis í víkjandi, breytanlegu skuldabréfi að fjárhæð 62,5 milljónum dala, jafnvirði rúmlega 8 milljarða króna, á núverandi gengi. Fjárfesting hluthafa Bakkastakks í verkefninu nam því um 10 milljörðum króna.
Í ársreikningi kísilversins fyrir árið 2020 kom fram að stjórnendur þess ættu í viðræðum við helstu birgja og lánadrottna um fjárhagslega endurskipulagningu.
Þá var greint frá því um miðjan janúar að Arion og PCC hefðu undirritað viljayfirlýsingu varðandi möguleg kaup PCC á kísilverinu í Helguvík sem var áður í eigu United Silicon. Engin starfsemi hefur verið í kísilverinu í Helguvík frá árinu 2017.