Fótbolti

Baunar á eina félagið sem ekki leyfir konunum að spila á aðalleikvanginum

Sindri Sverrisson skrifar
Real Madrid og Breiðablik mættust á Alfredo Di Stefano vellinum í Madrid í haust, í riðlakeppni Meistaradeildarinnar, þar sem Real vann öruggan 5-0 sigur.
Real Madrid og Breiðablik mættust á Alfredo Di Stefano vellinum í Madrid í haust, í riðlakeppni Meistaradeildarinnar, þar sem Real vann öruggan 5-0 sigur. Getty/Denis Doyle

Bandaríska knattspyrnukonan Ella Masar furðar sig á því að spænska stórveldið Real Madrid skuli ekki veita kvennaliði sínu tækifæri til að spila á Santiago Bernabéu eins og karlaliðið gerir, nú þegar ærið tilefni virðist til þess.

Masar er unnusta hinnar þýsku Babett Peter sem leikur með Real Madrid. Sjálf hefur Masar lagt skóna á hilluna og er orðin aðstoðarþjálfari hjá KC Current í Bandaríkjunu, eftir að hafa fætt son þeirra Peter árið 2020.

Masar bendir á það á Twitter að nú þegar átta liða úrslitin í Meistaradeild kvenna séu að hefjast ætli aðeins eitt félag ekki að láta heimaleik sinn fara fram á sínum stærsta leikvangi.

Átta liða úrslitin:

  • Bayern - PSG 
  • Real Madrid - Barcelona 
  • Juventus - Lyon 
  • Arsenal - Wolfsburg

Fram undan eru sannkallaðir stórleikir og sjö af átta liðum nýta tækifærið til að fá fleiri áhorfendur á völlinn, þó að þau spili vanalega á minni leikvöngum. Þannig ætlar Barcelona til að mynda að spila heimaleik sinn við Real Madrid á Camp Nou. Allir 85.000 miðarnir seldust upp á þremur dögum.

Real Madrid er eina liðið sem ekki gerir þetta heldur spilar heimaleik sinn við Barcelona á morgun á Alfredo Di Stéfano, líkt og vanalega. Þar spilaði liðið einmitt gegn Breiðabliki í riðlakeppninni síðasta haust.

Masar veltir því fyrir sér hver sé eiginlega ástæðan fyrir því að Real Madrid skuli ekki nýta Santiago Bernabéu fyrir stórleikinn við Barcelona:

„Bara svo að við séum öll á sömu blaðsíðu. Kvennalið Real Madrid má EKKI spila á Bernabéu, að mati einhverra stuðningsmanna, af því að þeir myndu skammast sín?! Eða ég skil ekki hvernig þær eiga það ekki jafnmikið skilið og karlaliðið!?“ skrifaði Masar á Twitter, minnti á að hún væri gallharður stuðningsmaður Real Madrid en bætti við að það þýddi að hún styddi við öll lið félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×