Ennfremur verður sennilega hægt að mæta væntri kostnaðarhækkun á Landspítalanum með rekstrarumbótum og aukinni stafrænni væðingu á spítalanum.
Gert er ráð fyrir því að þörfin fyrir rými á Landspítala muni aukast um um það bil 80 prósent árið 2040 sem jafngildir um 50 prósent fleiri rýmum en áætluð eru þegar Hringbraut opnar árið 2026.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu sem heilbrigðisráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun með greiningu á framtíðarþjónustu Landspítala til ársins 2040 og Innherji hefur fengið að sjá.
Heilbrigðisráðuneytið fékk alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið McKinsey til að annast greiningarvinnuna. Tveir vinnuhópar skipaðir sérfræðingum víðsvegar að úr heilbrigðisþjónustunni komu að verkefninu, auk þess sem skipaður var stýrihópur yfir því með fulltrúum heilbrigðisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, Landspítala og Nýs Landspítala ohf.
Ennfremur væri sennilega hægt að mæta um 23 prósent af hinni auknu þörf fyrir rými og um 33 prósent af væntri kostnaðarhækkun á Landspítala fram til ársins 2040 með því að ná fram hagræðingu með rekstrarumbótum og stafrænni væðingu.
Frá því að bygging nýs Landspítala hófst fyrir rúmum áratug hafa orðið margvíslegar breytingar í umhverfi heilbrigðisþjónustunnar. Heilbrigðisráðuneytið réðst í þetta verkefni þar sem talið var tímabært að endurskoða þarfir vegna uppbyggingar Landspítala og verður greining þessi nýtt sem grundvöllur þess.
Áhersla var lögð á að greina hvaða þjónustu Landspítali á ótvírætt að sinna og einnig hvaða þáttum þjónustu spítalans mætti sinna annars staðar.
Spítalinn sinnir of mörgum verkefnum
Gert er ráð fyrir að eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu muni aukast um um það bil 1 prósent á ári hvað varðar komur á göngudeildir og um um það bil 1,2 prósent á ári hvað varðar legudeildir, einkum vegna lýðfræðilegra breytinga.
Ákveðnar lykilaðgerðir eru raktar í skýrslunni sem geta vegið upp á móti þessari þróun. Hægt væri að mæta um helmingnum af hinni auknu þörf fyrir rými á legudeildum og auknum komum á göngudeildir með því að færa langtímaumönnunarsjúklinga frá Landspítalanum í önnur og betri úrræði. Slíkt myndi hafa í för með sér lægri kostnað og líklega betri þjónustu, að mati skýrsluhöfunda.
Til þess þyrfti að búa til það sem samsvarar um 240 rýmum í til dæmis heimahjúkrunar-, öldrunar- og endurhæfingarþjónustu, auk skipulagðs átaks til að færa langtímaumönnunarsjúklinga yfir á þjónustustofnanir utan Landspítala.
Taka þarf til í rekstri spítalans
Ennfremur væri sennilega hægt að mæta um 23 prósent af hinni auknu þörf fyrir rými og um 33 prósent af væntri kostnaðarhækkun á Landspítala fram til ársins 2040 með því að ná fram hagræðingu með rekstrarumbótum og stafrænni væðingu. Að ná fram þessari hagræðingu, ásamt breytingum á langtímaumönnun sjúklinga, myndi færa þörfina í um um það bil 760 rými árið 2040, eða litlu meira en þau um það bil 730 rými sem áætluð eru fyrir árið 2026.
Miðað við þróun þjónustu Landspítala að óbreyttu til ársins 2040 er gert ráð fyrir að þörf fyrir legurými á Landspítala verði um 1.100 rými árið 2040.
Skýrslan í heild sinni verður aðgengileg á vef Stjórnarráðsins síðar í dag.