Að því er kemur fram í frétt New York Times úrskurðaði áfrýjunardómstóll í Chicago í gærkvöldi að Smollett yrði sleppt úr fangelsinu í Cook sýslu gegn tryggingu en lögmenn Smollett færðu þau rök fyrir að hann yrði líklegast búinn að afplána dóm sinn áður en niðurstaða áfrýjunar lægi fyrir.
Saksóknarar gagnrýndu þau rök og sögðu það skapa hættulegt fordæmi að fresta afplánun þegar um stuttan dóm er að ræða. Tveir af þremur dómurum við áfrýjunardómstólinn voru þó sammála um að sleppa Smollett gegn tryggingu og vísuðu til þess að glæpur Smollett hafi ekki falið í sér ofbeldi.
Hafnar því að árásin hafi verið sviðsett
Mál leikarans hefur vakið töluverða athygli en í janúar 2019 sagðist hann hafa verið fórnarlamb árásar sem hann sagði hafa grundvallast á hatri árásarmanna á samkynhneigðum og svörtum. Fljótlega kom upp grunur um að Smollett hafi sviðsett árásina í þeim tilgangi að vekja athygli á sjálfum sér
Við réttarhöld í málinu sögðu saksóknarar að Smollett hafi greitt bræðrunum Abimbola og Plabinjo Osundairo til að ráðast á sig fyrir utan íbúð hans. Hafi hann fyrirskipað þeim að setja snöru um háls hans og ýja að því að þeir væru stuðningsmenn Donalds Trump, þáverandi Bandaríkjaforseta.
Jussie Smollett after the sentencing: I am not suicidal. If anything happens to me when I go in there, you must all know that. pic.twitter.com/xe2wYpQJ4O
— philip lewis (@Phil_Lewis_) March 11, 2022
Bræðurnir báru vitni fyrir dómi og sagði Abimbola að Smollett hafi skipað honum að ráðast á sig. Sjálfur neitaði Smollett því alfarið að árásin hafi verið sviðsett og hélt því fram að hann væri saklaus. Í desember 2021 var Smollett síðan sakfelldur af kviðdómi.
Þegar dómur var kveðinn upp í málinu síðastliðinn föstudag sagðist Smollett ekki vera í sjálfsvígshugleiðingum og að ef eitthvað kæmi fyrir hann í fangelsinu þá væri það ekki af eigin hendi. Hann virtist þannig vísa til máls Jeffrey Epstein sem fannst látinn í fangaklefa sínum meðan lögregla rannsakaði umfangsmikil kynferðisbrot hans.
Margir gagnrýndu þessi ummæli Smollett harðlega og héldu því fram að um væri að ræða enn eina tilraunina til að fá vorkun en dómari féllst þó á það að Smollett myndi njóta verndar á meðan afplánun hans stendur.